Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Sprenging á fasteignamarkaði í Garði og Sandgerði
    Jón Ben Einarsson skipulags- og byggingarfulltrúi í Garði og Sandgerði segir markaðinn hafa gjörbreyst á síðustu 20 mánuðum.
  • Sprenging á fasteignamarkaði í Garði og Sandgerði
Miðvikudagur 1. mars 2017 kl. 10:38

Sprenging á fasteignamarkaði í Garði og Sandgerði

Nægjusamara fólk vill minni íbúðir

Mikil umskipti hafa orðið á fasteignamarkaði í Sveitarfélaginu Garði og Sandgerði á síðasta eina og hálfa árinu. Fyrir réttum 20 mánuðum áttu fulltrúar Garðs og Sandgerðis fund með íbúðalánasjóði vegna gríðarlegs fjölda eigna sjóðsins sem stóðu tómar og voru jafnvel að grotna niður. Í dag er búið í öllum þessum íbúðum og skortur á eignum.

Jón Ben Einarsson er skipulags- og byggingarfulltrúi í Garði og Sandgerði. Hann hóf störf fyrir sveitarfélögin árið 2012 og hefur séð miklar breytingar á þeim tíma.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Fyrir 20 mánuðum síðan voru bæði Garður og Sandgerði að funda með Íbúðalánasjóði þar sem að hér stóðu í tugatali auðar íbúðir í eigu sjóðsins. Þetta voru 90 íbúðir í Sandgerði og rúmlega 70 íbúðir í Garði. Á báðum stöðum var einnig yfir tugur eigna í eigu banka. Þetta stóð allt autt og yfirgefið. Síðan hefur orðið ákveðin sprenging á svæðinu. Það sem hefur verið að gerast tvö til þrjú síðustu ár er að fólk hefur verið að kaupa þær eignir sem voru hálfkláraðar eftir hrun og ljúka við þær. Verktakar hafa verið að kaupa raðhúsalengjur og klára þessar eignir. Allar eignir Íbúðalánasjóðs og bankanna eru komnar út á markaðinn sem er í raun tómur í dag,“ segir Jón Ben.

„Ef við einbeitum okkur að öllu Reykjanesinu þá má segja að það hafi varla verið byggt íbúðarhús frá árinu 2008 og þar til fyrir tveimur árum síðan. Þar spilar inn í að fasteignaverð var of lágt á svæðinu á móti byggingakostnaði þannig að það var enginn hvati fyrir byggingaverktaka að byggja nýtt íbúðarhúsnæði.“

Byggingafulltrúinn er að upplifa aðra hluti í dag. „Ég finn núna að það er að myndast mikill þrýstingur og það er mikið spurt um lóðir og það vantar orðið gríðarlega húsnæði á svæðinu. Það hefur orðið algjör bylting í þessa átt á nokkrum mánuðum. Á sama tíma hefur verðið lagast þannig að það er orðið arðbærara að byggja en áður. Á sama tíma hafa þeir verktakar sem eru hér á Suðurnesjum haft mjög mikið að gera fyrir einkageirann og fyrir ferðaþjónustuaðila. Bara á svæðinu í kringum flugstöðina hafa á síðustu tveimur árum, í mínu umdæmi, verið í byggingu um 43.000 fermetrar af nýbyggingum.“

Jón Ben segir að það vanti verktaka til að sinna íbúðauppbyggingu á svæðinu. „Það vantar vinnuafl alls staðar. Þeir verktakar sem ég hef heyrt í, og þeir eru margir, þá vantar fólk og nú hef ég orðið var við það undanfarnar vikur að verktakar af höfuðborgarsvæðinu eru farnir að horfa til svæðisins. Það er erfitt að fá lóðir á höfuðborgarsvæðinu og þær eru dýrar. Á Suðurnesjum fást lóðir án þess að borga beint fyrir þær. Þú greiðir gatnagerðargjöld og byggingaleyfisgjöld. Hér er gríðarleg atvinnuuppbygging og vinnuafl vantar.“

Jón Ben segist vera farinn að hafa örlitlar áhyggjur af því hvernig við ætlum að leysa þau mál sem framundan eru í uppbyggingu á Suðurnesjum. „Þetta tekur allt tíma. Það þarf að skipuleggja hverfin og gera alla innviði klára áður en farið er í að byggja og svo tekur tíma að byggja.“

- Í hvaða ferli er þetta í Garði og Sandgerði?
„Á báðum stöðum eru til lóðir. Það eru hverfi hérna sem voru í uppbyggingu fyrir hrun. Í Garði var Teiga- og Klappahverfi nýskipulagt fyrir hrun. Þar var einn aðili farinn af stað fyrir hrun og það varð eina húsið í því hverfi þar sem skipulagðar höfðu verið 200 íbúðir. Það hverfi er tilbúið til að halda áfram uppbyggingu þar. Helmingurinn af lóðunum þar er fyrir einbýlishús en þar er lítil eftirspurn. Eftirspurnin hefur breyst og menn hafa meiri áhuga á raðhúsalóðum, parhúsalóðum og minni íbúðum, það er eins og markaðurinn í dag hafi ekki sömu einbýlishúsa- og bílskúrsdrauma og kynslóðirnar á undan. Fólk er nægjusamara og vill ekki eyða öllum ævitekjunum í húsnæðisafborganir og því tengdu. Við þurfum því að taka upp það skipulag sem við vorum með klár og breyta um áherslur, þétta byggðina og gera minni einingar.
Í Sandgerði eigum við eitthvað af lóðum í Lækjamóta- og Hólahverfi og ég held að þær verði fljótar að fara. Þar úthlutuðum við nær heilli götu á einu bretti um daginn og það eru orðnar daglegar fyrirspurnir um lóðir. Maður finnur þrýstinginn aukast svakalega.“

- Hvaða fólk er að sækjast í að flytja í Garð og Sandgerði. Er þetta heimafólk eða aðkomufólk?
„Mikið af þessu fólki kemur af höfuðborgarsvæðinu. Hluti er einnig að koma frá öðrum löndum til að sækja hingað vinnu. Það er töluvert um það að hér sé fólk að kaupa eignir sem hefur unnið í Garði og Sandgerði í nokkur ár. Hlutfall af íbúum af erlendum uppruna fer einnig stækkandi í byggðarlögunum“.

Jón Ben segir að Garður og Sandgerði hafi upp á alla grunnþjónustu og gæði að bjóða sem öll sveitarfélög vilja geta boðið uppá. „Garður og Sandgerði eru svolítið ólík sveitarfélög. Í Garðinum er fólk að sækjast í að koma í bæ í sveit. Hér er notalegt og rólegt að vera. Það er mín tilfinning að það er hærra hlutfall af eldra fólki sem sækist í að setjast að í Garðinum en yngra í Sandgerði. Þegar fólk veltir fyrir sér að stækka fjölskylduna og þarf að stækka við sig húsnæði þá þarf ekki að velta dæminu lengi fyrir sér þegar það skoðar mun á húsnæðisverði á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu“.

- Hvernig sérðu fram á að þetta þróist í Garði og Sandgerði næstu ár? Höfum við fólk og verktaka til að byggja upp það sem hér þarf?
„Nei, ég held að okkur vanti nokkuð uppá það núna. Ég get ekki séð að við höfum það sem þarf til að mæta því akkúrat núna en ég vona að úr rætist“.