Sporna gegn brotthvarfi nemenda
- Ná til nemenda í hættu á að hverfa frá námi
Ráðinn verður starfsmaður við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í haust sem mun hafa það verkefni að þróa stuðningkerfi fyrir þá nemendur sem eru í mestri hættu á að hverfa frá námi. Að sögn Kristjáns Ásmundssonar, skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja, verður þetta tilraun næsta vetur sem vonandi á eftir að ganga vel. Hann segir brotthvarf nemenda skólans hafa verið meira en æskilegt geti talist. „Það er þannig í framhaldsskólum sem taka inn alla nemendur sem sækja um, að brotthvarfið verður meira en í þeim skólum sem velja inn nemendur. Því erum við alltaf að leita leiða til að draga úr brotthvarfi því það er dýrt fyrir nemendur að hætta í einstökum fögum eða gera hlé á námi. Þá seinkar fólk útskrift sem er dýrara fyrir það til lengri tíma litið. Við viljum að nemendur nýti tíma sinn sem best og ljúki námi á þeim hraða sem þeir ráða við. Þá annað hvort kemst fólk út á vinnumarkaðinn með sín réttindi að lokinni útskrift eða í frekara nám,“ segir Kristján.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsti fyrr á árinu styrk til framhaldsskóla sem vilja gera átak til að vinna gegn brotthvarfi og var FS einn þeirra skóla sem sótti um og hlaut styrk. Þessi tilraun til að minnka brotthvarf nemenda verður því reynd í framhaldsskólum víðar um land á næsta skólaári.
Kristján segir samstarf við grunnskóla mikilvægan lið í því að minnka brotthvarf nemenda. „Það er alltaf betra ef nemendur eru búnir að ákveða hvað þeir vilja læra áður en nám í framhaldsskóla hefst. Þá er það áhuginn sem dregur þau áfram. Ef nemendur vita ekki hvað þeir vilja læra og eru að fylgja straumnum með því að fara í framhaldsskóla þá er skuldbindingin í huga þeirra oft ekki nógu mikil og þá aukast líkur á brotthvarfi.“ Nú þegar víða vantar fólk til vinnu er freistandi fyrir framhaldsskólanemendur að ráða sig í vinnu og fá aukapening og hægja á náminu. Kristján segir að til lengri tíma litið tapi fólk á slíku. „Þá seinkar fólk útskrift um hálft til eitt ár en gæti þess í stað verið í 100 prósent vinnu þann tíma ef það útskrifast fyrr. Við viljum fá nemendur til að meta hver raunverulegur ávinningur er af því að ljúka námi.“ Kristján bendir jafnframt á að sumir verði að stunda vinnu með námi til að framfleyta sér og að margir ráði vel við það. „Svo eru aðrir sem ekki ráða við það og það eru fyrst og fremst þau sem við viljum ná til.“
Ástæður brotthvarfs geta verið margvíslegar að sögn Kristjáns og sumt er hægt að hafa áhrif á en annað ekki. „Vinnan er stór þáttur, einnig fjarvistir og brot á skólareglum sem leiða til þess að nemendum er vísað úr námi. Það er eitthvað sem við getum reynt að taka á.“ Þá hefur Fjölbrautaskóli Suðurnesja gert samning við Skólaskrifstofu Reykjanesbæjar um að ráða sálfræðing í 50 prósent stöðu við skólann sem aðstoðar nemendur sem finna fyrir kvíða eða annarri andlegri vanlíðan.