Sporna gegn áhættuhegðun barna með nýju forvarnarverkefni
Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum skrifuðu undir samstarfssamning vegna forvarnarverkefnisins Ábyrg saman í Merkinesi í Hljómahöll í gær. Í verkefninu er lögð áhersla á að efla forvarnir og að beita snemmtækri nálgun til að mæta áhættuhegðun hjá börnum. Velferðarsvið Reykjanesbæjar og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum telja mikilvægt að bregðast strax við vandanum þegar afskipti lögreglu verða af barni sem stundar áhættuhegðun og koma þannig frekar í veg fyrir endurtekin afskipti.
Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri, og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, við undirritunina.
Um 30 bréf eru að jafnaði send á hverju ári frá barnavernd Reykjanesbæjar til foreldra vegna tilkynninga sem berast frá lögreglu og ekki er talin þörf á að hefja könnun í málinu. Á árinu 2019 hefur hins vegar verið aukning á tilkynningum frá lögreglu vegna áhættuhegðunar barna og því þykir mikilvægt að bregðast við vandanum.
Hera Ósk Einarsdóttir, sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjanesbæjar, fór yfir stöðu mála og forvarnarverkefnið framundan.
Í stað þess að barnavernd sendi foreldrum bréf mun fulltrúi frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum og Barnavernd Reykjanesbæjar bjóða foreldrum og barni upp á ábyrgt samtal þegar fyrstu afskipti lögreglu verða af barni vegna áhættuhegðunar og ekki er um að ræða barnaverndarmál. Með þessu verklagi er lögð áhersla á að bregðast strax við vanda barns og sýna sameiginlega ábyrgð til að draga úr áhættuhegðuninni með því að veita foreldrum og barni tækifæri til að eiga samtal um tilkynninguna, veita fræðslu og upplýsingar um úrræði sem stendur þeim til boða. Með verkefninu er unnið út frá heimsmarkmiði 3, Heilsa og vellíðan.
„Með þessu nýja verklagi tökum við höndum saman, sýnum ábyrgð og setjum börnin í fyrsta sæti,“ segir í tilkynningu.