Spor MOA sköðuðu
„Þetta eru auðvitað makalaus ummæli og lýsa best þessum manni sjálfum. Staðreyndin er sú að ferðaþjónustan á Suðurnesjum hefur aldrei verið öflugri en einmitt nú,“ segir Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja og vísar til ummæla Friðjóns Einarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Suðurnesja (MOA) í Víkurfréttum í síðustu viku. Þar sagði Friðjón m.a. að ferðaþjónustu hafi hrakað mjög, ferðamálasamtökin hafi á sínum tíma lokað á samstarf við sveitarfélögin á Suðurnsjum en væru nú loks að vakna til lífsins eftir að hafa lítið sinnt öðru en gönguferðum.
Kristján bendir á fjölmörg stór verkefni sem hafa litið dagsins ljós á undanförnum árum. „Ég bendi ég á Víkingaheima, sýninguna Orkuverið jörð, gríðarlegar endurbætur í Bláa Lóninu, Byggðasafnið á Garðskaga, sýninguna í Fræðasetrinu og Saltfisksetrinu sem allt eru ný eða nýlega settar upp. Ferðamálasamtökin hafa síðustu árin haldið hér ráðstefnur, menningarviðburði, gefið út bæklinga, haldið úti vefsíðu, stikað gönguleiðir, lagað aðgengi að ferðamannastöðum svo fátt eitt sé nefnt. Það hafa ferðamálasamtökin gert til að lyfta upp ferðaþjónustunni og bæta ímynd svæðisins en ekki til að auglýsa upp ferðamálasamtökin. Þó þessi maður hafi einhverja ástæðu til að tala niður ferðaþjónustuna á Suðurnesjum þá tek ég ekki þátt í því og vísa hans ummælum til föðurhúsanna. Suðurnesjamenn hafa sýnt mikinn metnað við uppbyggingu ferðaþjónustunnar.“
Þú þekkir líka aðeins til MOA skrifstofunnar sem var starfrækt í sínum tíma og var samstarfsverkefni sveeitarfélagnan. Friðjón segir margt gott hafa verið gert en nú skorti samstöðu meðal Suðurnesjamanna.
„Þegar kreppan gekk yfir Suðurnesin í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar var ég bæjarstjóri í Njarðvík og stjórnarmaður í SSS og formaður þess 1993-1994. Hér varð mesta atvinnuleysi á landinu og fór upp í 12% atvinnuleysi meðal kvenna og um 8% meðal karla árið 1993. Við í stjórn SSS fengum sveitarfélögin á Suðurnesjum, Aðalverktaka hf. og Hitaveitu Suðurnesja hf. til að leggja hundruð milljóna króna framlag til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Stofnað var Eignarhaldsfélag Suðurnesja hf., útgerðarfélag og fjöldi sprotafyrirtækja voru sett á laggirnar. Allt þetta mikla samstarf leiddi til þess að atvinnuleysið á Suðurnesjum hvarf tiltölulega fljótt sem betur fór. MOA skrifstofan var stofnuð eftir þetta. Hennar hlutverk virtist vera að fara með himinskautum í auglýsingum með litlum árangri og var skrifstofan því lögð niður. Spor MOA hræddu sveitarstjórnarmenn frá samstilltu átaki á svæðavísu í ferðamálum eins og Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa ávalt stefnt að. Þessi spor komu í veg fyrir að hægt væri að setja á laggirnar Markaðsstofu Suðurnesja fyrr en nú,“ sagði Kristján Pálsson.