Spóla og spæna á Keflavíkurflugvelli
Eins og áður hefur verið greint frá hér á vefnum virðast ákveðnir ökumenn sækja í það að spóla og spæna um götur og vegleysur á Keflavíkurflugvelli eða Vallarheiði, eins og byggðin þar er kölluð í dag.
Íbúar á Vallarheiði eru ekki óvanir því að heyra vælandi dekkjaspól frá stórum bílastæðum og víða um götum má sjá svartar rákir sem benda til þess að þar hafi verið spólað með látum og jafnvel hring eftir hring.
Nýverið fóru spólandi bílar inn á sparkvöll á svæðinu og spændu þar upp möl og grjóti, auk þess sem farið var inn á grasið og spólað þar.
Meðfylgjandi myndir náðust á Vallarheiði fyrir fáeinum dögum þar sem tveir bílar voru við ógætilegan akstur inni á umræddu íþróttasvæði þar sem sparkvöllurinn er.