SpKef sameinast Landsbankanum á næstu mínútum
Rekstur SpKef sparisjóðs og Landsbankans verður sameinaður nú á eftir, kl. 08:30. Frá og með þeim tíma verða allir starfsmenn SpKef starfsmenn Landsbankans og Landsbankinn yfirtekur allar eignir og skuldir SpKef Sparisjóðs.
Fjármálaráðherra og bankastjóri Landsbankans hafa boðað til blaðamannafundar í Stapanum kl. 10. Fyrir þann fund verður hins vegar fundað með starfsfólki SpKef sparisjóðs og hófst sá fundur núna klukkan átta. 150 manns starfa hjá SpKef, en sjóðurinn rekur 16 útibú á Suðurnesjum, Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Vesturlandi.
Mynd frá fundinum: Frá vinstri - Einar Hannesson Sparisjóðsstjóri, Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.