Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

SpKef hlutafélag eftir áramót?
Miðvikudagur 5. desember 2007 kl. 03:11

SpKef hlutafélag eftir áramót?

Sameining Sparisjóðsins í Keflavík við Sparisjóð Vestfirðinga og Sparisjóð Húnaþings og Stranda var samþykkt á fundi stofnfjáreigenda SpKef í Stapa í kvöld. Sameiningin mun ganga í gegn næstu áramót, en áður en að því kemur er mögulegt að skref hafi verið tekin í þá átt að breyta sparisjóðnum í hlutafélag.


Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri, sagði í samtali við Víkurfréttir að sú vinna gæti jafnvel hafist strax uppúr áramótum.


„Stjórnin hefur verið með það á prjónunum að fara út í hlutafélagavæðingu og jafnvel hefur verið rætt um að boða til stofnfjárhafafundar strax eftir áramótin til að ákveða framhaldið. Þvi er ekki að leyna að hlutafélagavæðing Sparisjóðsins myndi bæði styrkja og auka verulega ráðrúm til frekari stækkunar.“

Með því vísar Geirmundur til þess að reglur um sparisjóði og eignatilfærslur þeim tengdum eru afar þungar í vöfum miðað við almenn hlutafélög þar sem eignahlutir ganga auðveldlega manna á milli. Hann fullyrðir að fyrirhuguð hlutafélagavæðing muni ekki hafa í för með sér neina eðlisbreytingu á starfsemi SpKef.

Geirmundur útilokaði heldur ekki frekari sameiningar við aðra sparisjóði og sagði að takmarkið væri að ná sem flestum sparisjóðum saman í eina heild undir forystu SpKef. „Við höfum skrifað öllum sparisjóðum sem hefðu hugsanlega áhuga á að sameinast og höfum þegar fengið svör frá þremur, það er að segja þeim tveimur sem við vorum að sameinast hér í kvöld og svo Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis en svo verðum við að bíða og sjá með framhaldið.“

Fyrst um sinn verða sparisjóðirnir reknir undir merkjum Sparisjóðsins í Keflavík og verður stofnfé í sameiginlegum sjóði samtals rúmir fjórir milljarðar að nafnvirði, en um 8,8 milljarðar miðað við gildandi uppreiknistuðul.

Á fundinum var einnig kjörin ný stjórn. Þorsteinn Erlingsson verður áfram stjórnarformaður og áfram sitja Kristján Gunnarsson og Guðjón Stefánsson. Þeir Björgvin Sigurjónsson og Heimir Ágústsson koma nýir inn í stjórn.

VF-mynd/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024