Spennandi verkefni á norðurslóðum kynnt á Ásbrú
Hvað eru norðurslóðir? Svörin við því fást á kynningarfundi sem verkefnastjórn á vegum Heklunnar - Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og Isavia halda nk. fimmtudag, 23. janúar kl. 17-19. Fundurinn verður haldinn í þróunarsetrinu Eldey, Grænásbraut 506, á Ásbrú. Allir eru velkomnir á fundinn.
Mikilvægt er að fyrirtæki á Reykjanesi og aðrir sem hafa áhuga á málefninu, komi og kynni sér hvaða framtíðartækifæri felast í verkefnum á Grænlandi og norður íshafinu.
Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi, Heklan og ISAVIA skipuðu fulltrúa í verkefnishóp til að skoða tækifæri sem gætu skapast með verkefnum á Norðurslóðum þegar skipaumferð eykst, verkefni á Grænlandi aukast og það verði farið að bora fyrir olíu og gasi á Drekasvæðinu.
„Lögð er áhersla á að markaðssetja Ísland sem aðila til að takast á við þessi verkefni og þurfum við að vinna ötullega að undirbúningi þessara verkefna þannig að við séum tilbúin þegar þau koma. Í þessu tilefni þá hafa SAR og Heklan skrifað undir samstarfsyfirlýsingu við atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga þess efnis,“ segir Guðmundur Pétursson, formaður SAR, Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi í samtali við Víkurfréttir.
„Næsta skref í ferlinu er að samstarfsaðilar okkar á Norðurlandi koma hingað þann 23. janúar til að kynna þá aðila sem helst koma að þessu á Norðurlandi. Ísland á alla möguleika á að geta þjónað þessum verkefnum ef þeir standa saman sem ein heild í undirbúningi og skipulagi. Tækifærin eru fjölmörg og má nefna að hér á svæðinu er alþjóða flugvöllur með mannvirki sem mætti nýta sem birgðastöð, alþjóðlega höfn og mikið af mannvirkjum sem gætu nýst í þeim efnum. Þarna gætu skapast tækifæri í að efla ferðaþjónustu í báðar áttir og þar með stuðla betur að beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli til Norðurlands og tilbaka. Hér var í mörg ár rekin björgunarsveit Varnarliðsins og eru mörg mannvirkin sem notuð voru enn til staðar og má skoða það í þessu samhengi,“ segir Guðmundur Pétursson jafnframt.