Spennandi tími framundan hjá Þekkingarsetri Suðurnesja
Starfsemi Þekkingarseturs Suðurnesja er komin á fullt á nýju ári og margt spennandi framundan. Hlutverk Þekkingarsetursins er fjölbreytt en Náttúrustofa Suðvesturlands og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum bera uppi rannsóknarhluta þess.
Námskeið í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Eitt af markmiðum Þekkingarseturs Suðurnesja er að auka menntunarmöguleika á svæðinu í samvinnu við MSS, með sérstaka áherslu á náttúrufræði og menningu svæðisins. Sex spennandi námskeið verða haldin nú á vorönn og í sumar:
- Uppstoppun dýra
- Hafið gaf og hafið tók – Sjóslys á Suðurnesjum
- Hver var Jean-Baptiste Charcot?
- Fuglaskoðun – Hvar, hvenær og hvernig?
- Kræklingatínsla
- Tínum söl
Námskeiðin eru opin öllum og ókeypis. Lesa má nánar um þau á heimasíðu MSS þar sem skráning fer einnig fram.
Styrkur til uppbyggingar rannsóknastöðvar í flokkun lífvera
Undir lok árs 2012 samþykkti ráðherranefnd um atvinnumál að veita Þekkingarsetri Suðurnesja 20 milljóna króna styrk til uppbyggingar rannsóknastöðvar í flokkun og greiningu lífvera. Styrkurinn er til tveggja ára og verður nýttur til ráðningar tveggja líffræðinga. Fyrra árið mun fara í þjálfun þeirra og þróun stöðvarinnar en það seinna í öflun þjónustuverkefna og vinnu við rannsóknir. Stefnt er að því að rannsóknastöðin verði sjálfbær að þessum tveimur árum liðnum. Rannsóknastöðin hefur þegar fengið sitt fyrsta þjónustuverkefni sem gaf svigrúm til ráðningar þriðja líffræðingsins. Starfsmannafjöldi Þekkingarsetursins hefur því tvöfaldast á fyrstu mánuðum starfseminnar, úr þremur starfsmönnum í sex, sem er mjög ánægjulegt. Ráðningarnar hafa jákvæð áhrif á menntunarstig á svæðinu þar sem starfsmennirnir hafa allir lokið háskólanámi. Þau Íris Mýrdal Kristinsdóttir, Sunna Björk Ragnarsdóttir og Sölvi Rúnar Vignisson hafa tekið til starfa hjá setrinu.
Rannsókn á áhrifum olíumengunar á sjávarlífverur
Nú í janúar munu fjórir Norðmenn dvelja hjá okkur í Þekkingarsetrinu í þrjár vikur við rannsóknir á áhrifum olíumengunar á sjávarlífverur. Allir koma þeir frá Oslóarháskóla, tveir prófessorar og tveir meistaranemar. Rannsóknin er unnin í samstarfi við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum og verður forstöðumaður þess, Dr. Halldór Pálmar Halldórsson, meðleiðbeinandi meistaranemanna. Rannsóknin snýst um að kanna áhrif olíumengunar í sjó á þorsk, sandhverfu og krækling.
Þekkingarsetrið býður skólahópa velkomna í heimsókn
Í Þekkingarsetrinu eru tvær sýningar sem eru fróðleg og skemmtileg viðbót við kennslu á öllum skólastigum, til dæmis í náttúrufræði, sögu og frönsku. Annars vegar er um að ræða náttúrugripasýningu og hins vegar sögusýninguna Heimskautin heilla. Líkt og kemur fram í Aðalnámskrá grunnskóla er eitt mikilvægasta hlutverk grunnskólakennslu í náttúrufræði að viðhalda þeirri forvitni sem börn hafa á fyrirbærum náttúrunnar. Útikennsla og vettvangsnám, sem er sérstaklega mikilvægt í náttúrufræðinámi, fléttast saman við heimsókn á sýningarnar með fjöru- eða tjarnaferð. Nemendur safna þar lífverum sem þeir geta svo skoðað í víðsjám á Þekkingarsetrinu auk þess sem snerta má ýmis dýr á sýningunni, bæði lifandi og uppstoppuð, ef maður þorir!
Fylgist endilega með okkur á Facebook síðunni: http://www.facebook.com/thekkingarsetursudurnesja og heimasíðunni: www.thekkingarsetur.is
Hanna María Kristjánsdóttir
Forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja