SPENNANDI RANNSÓKNIR Á SJÁVARDÝRUM!
Hafrannsóknastofnun Íslands hefur rekið tilraunaeldisstöð í hrauninu rétt utan við Grindavík frá árinu 1988. Markmið stöðvarinnar eru tvíþætt, annars vegar eldisrannsóknir á sjávarfiskum, s.s. lúðu og sandhverfu og hins vegar líffræðilegar rannsóknir m.a. á þorski. Matthías Oddgeirsson hefur verið umsjónarmaður tilraunaeldisstöðvarinnar síðan 1992 en auk hans eru fastir starfsmenn Agnar Steinarsson líffræðingur og Njáll Jónsson og Ellert Guðmundssson fiskeldisfræðingar.Tilraunir á þorski„Við höfum gert mjög víðtækar líffræðilegar tilraunir á þorski, m.a. kannað vöxt miðað við mismunandi hita og mismunandi fóður. Við höfum einnig safnað hrognum úr villtum þorski og skoðað hrognagæði með hliðsjón af stærð og ástandi hrygnunnar. Við höfum einnig framleitt nokkur þúsund þorskseiði á ári til að nota í tilraunir“, segir Matthías. Framfarir í sandhverfueldiSandhverfa er sjaldgæfur fiskur við Íslandsstrendur en sá fiskur er álitlegur eldisfiskur því kílóið af honum kostar um 600-1.200 kr. á Evrópumarkaði. „Við höfum safnað lifandi sandhverfu í samstarfi við sjómenn en gengið illa að láta fiskinn hrygna í stöðinni. Í fyrra tókst okkur þó að framleiða 1.500 seiði og á þessu ári jókst framleiðslan í 10.000 seiði. Við erum um þessar mundir að senda megnið af seiðunum í tvær eldisstöðvar sem hafa aðstöðu og áhuga til að prófa sandhverfueldi“, segir Matthías.Kynbætur á lúðu og sæeyrumStarfsmenn Hafró í Grindavík eru að fara af stað með kynbótatilraunir á lúðu í samstarfi við Fiskeldi Eyjafjarðar og Stofnfisk hf. Eldistilraunir á hlýra eru líka á dagskrá en Matthías telur að þeir muni ekki hafa nægan tíma að sinna þeim tilraunum í bili. Árið 1988 var farið að gera tilraunir á sæeyrum á eldisstöð Hafró. Árið 1993 var síðan stofnað fyrirtækið Sæbýli í Vogum sem er eingöngu með eldi á sæeyrum. „Við höfum gert hitatilraunir og unnið að kynbótum á sæeyrum í samstarfi við Sæbýli og Stofnfisk og erum nú að byrja á þurrfóðurverkefni með Sæbýli og Laxá. Sæeyru lifa á þara en þau þurfa svo mikið af honum að það myndi spara mikla fyrirhöfn ef hægt yrði að búa til gott þurrfóður fyrir sæeyrun“, segir Matthías.RannsóknasamstarfRannsóknir og eldistilraunir á fiski eru gerðar víða um heim og Matthías segir að samstarf við erlenda aðila vera að aukast. „Við vorum að senda út 600 sandhverfuseiði til Noregs en þar á að gera á þeim samanburðarrannsóknir við seiði frá Noregi, Skotlandi og Frakklandi. Við höfum einnig verið í góðu samstarfi við innlendar stofnanir eins og fiskisjúkdómadeildina á Keldum, ýmsar deildir í Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins“, segir Matthías.