Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Spennan magnast fyrir bikarúrslitin
Föstudagur 1. október 2004 kl. 17:36

Spennan magnast fyrir bikarúrslitin

Á morgun mætast Keflavík og KA í úrslitum VISA-bikarsins 2004.

Leikurinn verður eflaust frábær skemmtun, enda um að ræða stærsta leik ársins í íslenskri knattspyrnu. Þátttaka í honum er tækifæri sem fæstir fá, en nú í ár mæta tveir Keflvíkingar til leiks sem voru í bikarmeistaraliðinu 1997, þeir Þórarinn Kristjánsson og Guðmundur Steinarsson.

Guðmundur, sem var 18 ára þegar hann lyfti bikarnum, segir tilfinninguna vera svipaða nú og fyrir 7 árum.
„Ég á afar ljúfar minningar frá leiknum ´97 og býst við að þessi verði svipaður. Þetta er bara annar fótboltaleikur.“

Guðmundur bætti því við að hann hefði ekki áhyggjur af yngri strákunum sem hafa verið taldir nokkuð reynslulausir. „Ég hef fulla trú á strákunum. Þetta snýst allt um að hafa afslappað hugarfar og fara út í leikinn til að hafa gaman af honum,“ segir Guðmundur sem telur að ef hans menn mæti til leiks einbeittir og með hausinn í lagi ættu þeir að hafa sigur.

Að lokum segir Guðmundur aðspurður að undirbúningurinn fyrir stórleikinn á morgun verði með hefðbundnu sniði. „Við komum allir saman og fáum okkur eitthvað létt að borða, svo er fundur og að honum loknum förum við bara að leggja af stað.
Þannig höfum við haft þetta fyrir alla leiki og trúum því að maður eigi ekkert að vera að breyta út af vananum þó það séu bikarúrslit. Það kallar bara á óþarfa stress.“

Vert er að minna á upphitun stuðningsmanna Keflavíkur sem verður á Brodway, Ásbyrgi og opnar húsið þar kl. 11:00   Þar verður boðið upp á andlitsmálun, flottasti stuðningsmaðurinn verður kosinn úr hópi stuðningsmanna.  Hvatningarhróp og söngvar æfðir.  Stuðningsmenn eru hvattir til að mæta, veitingar verða í boði fyrir börn og fullorðna. Leikurinn sjálfur hefst kl. 14.

Þess má geta að Veðurstofan spáir ágætis veðri fyrir leikinn þannig að enginn þarf að láta veðrið stoppa sig.

VF-myndir/Héðinn og Hilmar Bragi: Gamlar og nýjar svipmyndir úr bikarnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024