Sparisjóðurinn opnar nýja afgreiðslu í Garði
- gestum og gangandi boðið til veisluhalda í dag -
Sparisjóðurinn opnar nýja og glæsilega afgreiðslu í Garði í dag.. Afgreiðslan er staðsett við Sunnubraut í nýju miðbæjarhúsi þar sem ný verslun Samkaupa er til húsa.
Í tilefni af 25 ára afmæli útibúsins í Garði og einnig opnunar nýs húsnæðis þá mun Sparisjóðurinn bjóða Garðmönnum, gestum og gangandi til veislu í dag. Boðið verður upp á veisluföng allan daginn og frá kl. 15 - 18 verður sérstök skemmtun fyrir yngstu krakkana, hoppukastalar og fleira í þeim dúr. Ráðgjafar Sparisjóðsins munu einnig koma í heimsókn og vera til skrafs og ráðagerða.
Á meðan byggingarframkvæmdir stóðu yfir hafði Sparisjóðurinn aðsetur að Heiðartúni 2 en flytur nú yfir í mun stærra húsnæði sem uppfyllir ströngustu kröfur sem hægt er að gera til bankaafgreiðslu í dag.
Þjónustustjóri hjá Sparisjóðnum í Garði er Margrét Lilja Valdimarsdóttir sem veitt hefur afgreiðslunni forstöðu frá opnun í mars 1982. Auk hennar eru þrír aðrir starfsmenn í Sparisjóðnum. Afgreiðslan verður opin á sama tíma og áður, þ.e. virka daga frá kl. 9:15 – 16:00.
Afgreiðslan í Garði var annað útibú Sparisjóðsins í Keflavík og jafnframt þriðja útibú sparisjóðs sem opnað var á Íslandi.
Myndir: Nýtt og glæsilegt útibú SpKef í Garði var opnað formlega á föstudaginn og voru þessar myndir teknar við það tækifæri. Á annari myndinni er Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði að leggja inn á reikning, fyrst viðskiptavina í nýju útibúi. Í dag verður svo húllumhæ við útibúið af þessu tilefni auk þess sem 25 ára afmæli útibúsins er fagnað.
VF-myndir: elg