Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Spkef hætta
Miðvikudagur 22. apríl 2009 kl. 17:56

Sparisjóðsstjóri og stjórnarformaður Spkef hætta



Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík hófst kl. 17 í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju. Fullt er út úr dyrum og líklega um fimm hundruð manns á fundinum.
Þorsteinn Erlingsson, stjórnarformaður fór lítillega yfir árið 2008 sem er líklega það versta í sögu Sparisjóðsins í Keflavík en tap á rekstri sjóðsins nam 17 milljörðum króna á móti tæplega 2 milljarða hagnaði árið á undan.
Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri fór í ræðu sinni hörðum orðum um ríkisvaldið varðandi stuðning þess við sparisjóðina en því hefur verið lofað. „Ef ekkert verður að gert munu sparisjóðirnir blæða út á næstunni,“ sagði Geirmundur.
Geirmundur fór yfir slæma stöðu íslensku krónunnar og fleira tengt bankahruninu en hann sagði í upphafi ræðu sinnar að íslenska útrásin hafi breyst í nauðvörn.
Hann fór yfir sameiningarmál sparisjóðanna og sagði að vinna við sameiningu Spkef og Byrs yrði haldið áfram á næstunni en Spron var inni í þeim pakka í upphafi.
Sparisjóðurinn í Keflavík hefur lykilhlutverk að gegna í framtíð sparisjóðina, ekki síst ef af sameiningu við Byr verður að veruleika.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikil óvissa er framundan í íslensku efnahagslífi en Geirmundur sagði Sparisjóðinn tilbúinn í þann slag. Hann sagði að aðhaldsaðgerðum hafi verið beitt í rekstri og væri von á frekari slíkum aðgerðum á næstunni. Sparisjóðurinn hefur náð samkomulagi við erlenda lánadrottna en SpKef skuldar 50 milljónir Evra í útlöndum.

„Sparisjóðirnir lifa þó laskaðir séu. Fall viðskiptabankanna mun styrkja stöðu sparisjóðanna sem búa yfir trausti og tryggð viðskiptavina. Sparisjóðirnir geta auðveldlega orðið leiðandi afl á Íslandi á næstu árum. Viðskiptavinir og sveitarfélög sem og starfsfólk hefur staðið með og stutt Sparisjóðinn í Keflavík,“ sagði Geirmundur.


Í máli Geirmundar kom fram að hann mun hætta sem Sparisjóðsstjóri á árinu eftir 44 ára starf. „Mér finnst að nú sé nóg komið og að aðrir taki við í nýju fjármálaumhverfi á Íslandi,“ sagði Sparisjóðsstjóri.
Þorsteinn Erlingsson, fráfarandi stjórnarformaður sagði að stjórn SpKef hefði samið við Angantýr Jónasson um að sinna starfi Sparisjóðsstjóra frá 1. júní til áramóta. Angantýr hefur sinnt starfi svæðisstjóra á Vestfjörðum.


Nánar frá fundinum síðar.