Spara þarf 900 milljónir kr. á ári
-fjölmenni á íbúafundi um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar í Stapa
Reykjanesbær mun fara í sérstaka aðgerðaráætlun til að ná fram 900 milljóna króna sparnaði hjá bæjarsjóði á árinu 2015 og næstu ár á eftir, í samræmi við tillögur endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækisins KPMG. Sóknin - vörðun til framtíðar er vinnuheiti á þessari aðgerð á viðsnúningi í rekstri Reykjanesbæjar sem mun verða í fjórum þáttum í starfsemi bæjarfélagsins. Þetta kom fram á íbúafundi sem hófst kl. 20 í Stapa í Njarðvík.
Meðal þátta í tillögum til úrbóta hjá Reykjanesbæ má nefna:
- Endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar.
- Auka skilvirkni og hagræða í rekstri, m.a. með auknum álögum á bæjarbúa, hækkun útsvars og fasteignagjalda.
- Dregið verði úr bílastyrkjum starfsmanna, sett á yfirvinnubann og ráðningarbann.
Sparað á öllum sviðum
Í skýrslunni eru settar fram tillögur að markmiðum um aðgerðir í rekstri bæjarsjóðs, verkefnum sem snúa að B-hluta fyrirtækjum, áherslum í fjárfestingum og aðgerðum vegna efnahags. Í rekstri er stefnt að því að ná fram 500 millj. kr. sparnaði á næsta ári og 400 millj. kr. tekjuaukningu. Hún kæmi líklega mest fram í auknum skattbyrðum á bæjarbúa en sparnaður með ýmsum leiðum. Hámark fjárfestinga verði 200 millj. kr. að jafnaði á ári næstu árin þar til fjárhagsmarkmiðum hefur verið náð. Með áhrifum aðgerðanna verði skuldaviðmið, sem eru nú 230,4%, komið niður í 138% árið 2019 og niður í 102% árið 2021 en viðmið sveitarfélaga samkvæmt sveitarstjórnarlögum er að heildarskuldir og skuldbindingar mega ekki vera umfram 150 millj. kr. af heildartekjum.
Heildarskuldir bæjarins eru um 40 milljarðar kr. Um 25 milljarðar eru á A-hluta og á B-hluta um 15 milljarðar. Endursemja þarf við lánadrottna en þar er þrotabú Glitnis stærsti aðili vegna Fasteignar en skuld Reykjanesbæjar vegna hennar er um 12 milljarðar. Skoðað verður hvort hægt sé að selja fleiri eignir en ekki er talið líklegt að það séu miklir möguleikar í þeim efnum. Reykjanesbær var skuldugasta sveitarfélagið í árslok 2013 miðað við skuldir sem hlutfall af tekjum.
Í B-hluta stofnunum á að skoða möguleika á sölu eigna eða með sameiningu. Þá hefur m.a. verið uppi á borðinu hvort Reykjaneshöfn gengi í sæng með Faxaflóahöfnum. Þá myndi skuldabyrðin færast annað en að sama skapi myndi hagurinn af betri rekstri síðar ekki koma með sama þunga inn í bæjarsjóð Reykjanesbæjar. Í skýrslu KPMG kemur fram að peningar úr A-hlutanum hafi verið notaðir í greiðslu skuldbindinga hjá stofnunum í B-hluta, þ.e. skuldir Helguvíkurhafnar hafa m.a. verið greiddar úr A-hlutanum. KPMG leggur til að B-stofnanir verði sjálfbærar. Þá verði lögð áhersla á að HS Veitur, sem eru hluti af B-stofnunum bæjarfélagsins, skili hámarks arði til A-hluta. HS veitur styrkja reikninga Reykjanesbæjar með góðri stöðu en bæjarfélagið á meirihluta í fyrirtækinu.
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í sl. viku að fram fari endurskoðun á skipulagi og skipuriti Reykjanesbæjar með það að markmiði að auka skilvirkni og hagræða í rekstri. Tillögur liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2015. Bæjarráð samþykkti einnig að unnin verði sérstök greining á launagreiðslum innan sveitarfélagsins, þ.m.t. greiðslum vegna yfirvinnu, bifreiðastyrkjum og öðrum greiðslum, sem eru utan kjarasamninga. Niðurstöður liggi fyrir sem fyrst, eigi síðar en 30. nóvember 2014. Tímabundið bann verður við nýráðningum starfsfólks innan bæjarskrifstofunnar og að reynt verði að manna lausar stöður með núverandi starfsfólki. Jafnframt verði ekki endurráðið í stöður undirstofnana nema með sérstöku samþykki bæjarráðs.
Sérfræðingar KPMG sögðu á fundinum í Stapa að að þó staðan væri slæm og bæjarfélagið væri búið að vera á rauðu ljósi í mörg ár væri hægt að snúa við stöðunni. Mikilvægt væri að um sátt skapaðist um hvernig það væri gert, þ.e. að aðgerðaráætlun yrði fylgt.
Nokkrar fyrirspurnir komu úr sal og var þeim svarað. Ein þeirra kom frá Skúla Thoroddsen en hann sagði að þetta væri dapurleg niðurstaða fjármálastjórnar síðasta meirihluta undanfarin tólf ár og undraðist á því af hverju innanríkisráðuneytið eða eftirlitsnefnd sveitarfélaga væri ekki búin að taka yfir rekstur bæjarfélagsins.
Kjartan Már Kjartansson sagði í lokaorðum að ekki væri komin nákvæm áætlun hvernig hagræða ætti um 500 milljónir króna en verið væri að vinna í því. Allir, starfsmenn, bæjarfulltrúar og bæjarbúar þyrftu að taka þátt í því verkefni að snúa blaðinu við.