Spáir rúmlega sex þúsund nýjum störfum
Ný skýrsla Capacent, sem kynnt verður bæjarráði Reykjanesbæjar í dag, spáir því að nýjum störfum, beinum og afleiddum, muni fjölga um 6.500 ársverk fram til 2013 vegna áforma um ýmsar stórframkvæmdir á Suðurnesjum. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag.
„Þessi tala er varlega áætluð," segir Capacent. „Heildarlaunatekjur vegna þessara atvinnukosta nema rúmum 27 milljörðum króna yfir tímabilið 2010-2013."
Í skýrslunni er gert ráð fyrir að útsvarstekjur 2010 aukist um 680 milljónir króna, eða um 16 prósent, sem er svipað og gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun bæjarins. Hins vegar spáir Capacent því að útsvarstekjur Reykjanesbæjar aukist um 1.657 milljónir króna árið 2011 og alls um 4,3 milljarða króna fram til 2013 vegna áhrifa álvers í Helguvík, Kísilverksmiðju, virkjana HS Orku, ýmissa framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og gagnavers Verne Holding.
Tekjuauki sveitarfélagsins fram til 2013 verði alls 5 milljarðar, þegar tekið hefur verið tillit til tekna af auknum fasteignagjöldum og hafnargjöldum, segir í Fréttablaðinu.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson