Spá kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi í næstu viku
Skjálftavirkni á umbrotasvæðinu norðan Grindavíkur heldur áfram að vera væg. Um 20 smáskjálftar hafa verið að mælast á hverjum sólarhring síðustu daga. Kvikusöfnun við Svartsengi heldur áfram og hefur hraðinn verið nokkuð stöðugur sem svipar mjög til þess sem sást í aðdraganda síðustu eldgosa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Atburðarrásin sem hófst í lok október 2023 með landrisi við Svartsengi heldur því áfram. Á meðan að kvikusöfnun heldur áfram má búast við nýju eldgosi á sömu slóðum og áður.
Haldi kvikusöfnun áfram með sama hraða og nú mun magn kviku ná þeim þröskuldi í næstu viku sem talið er að þurfi til að koma af stað næsta kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi. Magn kviku sem safnast hafði við Svartsengi áður en fyrri gos hófust hefur verið á bilinu 8 til 13 milljón m3. Verið er að vinna ný reiknilíkön til að fá nánari mynd af því magni sem safnast hefur.
Ekki er talin ástæða til að auka hættustig á svæðinu að svo stöddu og er hættumat Veðurstofunnar því óbreytt frá því síðast.
Hættumatið verður uppfært á mánudaginn 26. febrúar og að öllu óbreyttu verður hættustig á nokkrum svæðum hækkað samhliða auknu kvikumagni undir Svartsengi og þar með auknum líkum á eldgosi.