Sóttvarnaraðstaða fyrir gæludýr tekin í noktun á Keflavíkurflugvelli
Tekin hefur verið í notkun á Keflavíkurflugvelli sóttvarnaraðstaða fyrir gæludýr sem flutt eru til landsins og er aðstaðan til húsa í vöruhúsnæði IGS. Aðstaðan var innréttuð í haust að tilstuðlan embættis yfirdýralæknir í samræmi við reglugerð um innflutning gæludýra og hundasæðis sem sett var af landbúnaðarráðherra í júní á þessu ári.
Í tilkynningu á vefsíðu embættis yfirdýralæknis kemur fram að við komu dýranna til landsins fari þau rakleitt í aðstöðuna þar sem dýrin eru skoðuð af héraðsdýralækni eða fulltrúa hans ásamt starfsmönnum tollgæslunnar. „Héraðsdýralæknir skal sannreyna að dýrin sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og samþykki yfirdýralæknis. Að skoðun lokinni eru hundar og kettir fluttir áfram til Hríseyjar þar sem þau dvelja í 4 vikur í einangrun. Sóttvarnaraðstaðan, sem er um 30 fermetrar að stærð, er tvískipt og í innra herbergi eru fjögur búr, það stærsta er 150x75x93 cm að stærð. Þegar dýrin eru tekin úr flutningsbúrum sínum til skoðunar er þeim brynnt og búrin þrifin, sé þess þörf. Ef tafir verða á flutningi dýranna til Hríseyjar eru þau vistuð í aðstöðunni og þau fóðruð. Ýtrustu smitvarna skal gætt í sóttvarnaraðstöðunni og heimsóknir eigenda eru óheimilar,“ segir í tilkynningu á vef yfirdýralæknis.
Ljósmynd af vef yfirdýralæknis: Ef tafir verða á flutningi dýranna til Hríseyjar eru þau vistuð í búrum sem eru í innra herbergi aðstöðunnar.