Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sótti soninn til Slóvakíu
Ragnar Hafsteinsson með Adami syni sínum.
Þriðjudagur 27. október 2015 kl. 16:01

Sótti soninn til Slóvakíu

- Búið var að skrá drenginn sem íbúa í landinu

„Ég var ekkert að fara að fá son minn aftur og sótti hann því til Slóvakíu,“ segir Ragnar Hafsteinsson, faðir úr Keflavík, búsettur í Noregi, sem undanfarnar vikur hefur barist fyrir því að endurheimta Adam, sex ára gamlan son sinn, heim frá Slóvakíu. Drengurinn fór í viku langa heimsókn til móður sinnar sem er búsett þar. Ragnar átti von á drengnum til baka sunnudaginn 11. október síðastliðinn en hann kom ekki. Eftir það heyrði Ragnar ekki frá móðurinni né gat náð í hana. Ragnar og móðir drengsins slitu sambandi sínu árið 2012 og var honum dæmt forræði árið 2014. „Ég hafði um þrennt að velja; að gleyma þessu bara eða fara í gegnum lagaferli sem gæti tekið 7 til 10 ár og óvíst að nokkuð komi út úr eða einfaldlega að sækja drenginn til Slóvakíu,“ segir hann. 

Ragnar komst að því að búið var að skrá Adam sem íbúa í Slóvakíu og í skóla þar. „Það á ekki að vera hægt því foreldri verður að geta sýnt fram á forsjá, fæðingarvottorð og annað. Þetta var því mjög skrýtið. Þegar ég frétti þetta var ekki um annað að ræða en að sækja barnið.“ Hann hafði sett af stað söfnun vegna baráttunnar og nýtti það fé sem hafði safnast til að fá aðstoð sérfræðinga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Síðan árið 2014 hefur slóvakíska ríkið í þrígang verið dæmt fyrir brot á mannréttindum í sambærilegum málum. Ég setti mig því í samband við sérfræðinga og fór með þeim til Slóvakíu að sækja drenginn. Við fórum öll saman út og höfðum uppi á barninu. Eftir að við fundum hann var næsta skref að finna aðferð til að ná honum til baka. Það var alltaf ætlunin að láta reyna á málið fyrir dómstólum en allir sérfræðingar ráðlögðu mér að gera það ekki því málið myndi líklega tefjast fram úr hófi og ég myndi aldrei fá barnið aftur. Það var auðvitað óheppilegt að málið skyldi fara svona en við gerðum þetta á besta mögulega hátt miðað við aðstæður og brutum engin lög.“

Málinu er þó ekki lokið og segir Ragnar næstu skref að breyta umgengnisskilmálum dóms um forræði frá árinu 2014. „Svo veit ég ekki hvernig þetta verður í Slóvakíu. Kannski kærir hún mig fyrir barnsrán en það myndi sennilega ekki halda því ég er með forræðið.“ Feðgarnir fluttu til Sandnes í Noregi síðasta vor og er Adam nýbyrjaður í 1. bekk. „Ég þarf að búa svo um að hún ekki endurtekið þetta. Það er ennþá kæra á hana fyrir barnsrán í Noregi og hún gæti átt von á sex ára fangelsi ef hún kemur hingað.“

Hvernig tilfinning var svo að hitta son sinn aftur?

„Þið getið rétt ímyndað ykkur. Það er besta tilfinning í heimi. Hann er núna hjá mér, við góða heilsu, kátur og sæll.“