Sótt verði um framlag til endurbóta á Garðvangi
	Bæjarráð Garðs leggur áherslu á að samkomulagi aðildarsveitarfélaga Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum verði fylgt eftir og hið allra fyrsta verði sótt um framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra til endurbóta á Garðvangi.
	
	Fyrir liggur að ráðast þarf í breytingar á Garðvangi. Þar mun hjúkrunarrýmum fækka um nær helming en ráðast þarf í breytingar og stækkun á herbergjum á hjúkrunarheimilinu til að færa aðstöðu þar til samræmis við nútíma kröfur.
	
	Forsendur þess að hjúkrunarheimilinu Garðvangi verði breytt í 20 rýma hjúkrunarheimili haldast í hendur við það að nýtt hjúkrunarheimili sem nú er í smíðum á Nesvöllum í Reykjanesbæ verði 80 rýma en ekki 60 eins og samið hefur verið um.
	
	Velferðarráðuneytinu hafa verið sendar óskir um að rýmum á Nesvöllum verði fjölgað um 20 og fjórðu hæðinni þar með bætt ofan á þær þrjár sem nú eru í smíðum.
	 


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				