Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Sorpflokkun ætti að vera skylda
Tómas Knútsson hjá Bláa hernum.
Laugardagur 6. febrúar 2016 kl. 06:10

Sorpflokkun ætti að vera skylda

- Tómas Knútsson um ruslið í sjónum

Gangi spár eftir verður meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050. Þetta er niðurstaða skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Tómas Knútsson hefur um árabil barist ötullega fyrir hreinum sjó. Fyrir tuttugu árumstofnaði hann Bláa herinn og hefur látið til sín taka við hreinsun á strandlengjunni og víðar. 
 
Frá stofnun Bláa hersins hafa liðsmenn hans tínt 1200 tonn af rusli og varið til þess um 50.000 klukkustundum. Tómas segir skeytingarleysi stjórnvalda gagnvart rusli í gegnum tíðina hafa verið algert. Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París í lok síðasta árs hafi þó vakið marga af værum blundi. „Það má líkja ástandinu í umhverfismálum við bíl sem vegur salt á bjargbrún. Það er núna eða aldrei ef við ætlum að snúa af braut tortímingar. Svo heyrast reyndar líka raddir um að við séum orðin of sein,“ segir hann.
 
 
 
Flokkun ætti að vera sjálfsögð
 
Tómas segir kerfið aldrei hafa byrjað að taka á sorpmálum og náttúruvernd af fullri alvöru. „Það er algjör synd að urða og brenna sorp. Að sjálfsögðu ætti að flokka allt rusl. Annað ætti að vera bannað. Það þýðir ekkert annað en boð og bönn þegar ástandið er eins og það er. Það ættu ekki að vera neinar undanþágur. Í dag ræður fólk því hvort það flokki eða ekki og það bara gengur ekki upp. Komandi kynslóðir verða að læra sorpflokkun. Að henda öllu sorpi í eina tunnu og borga svo fyrir að láta urða það eða brenna er algjörlega úr takti við öll umhverfisverndarsjónarmið,“ segir hann ákveðinn. Að mati Tómasar ættu sveitarfélög að koma til móts við fólk þannig að það geti flokkað sér að kostnaðarlausu og fengi jafnvel greitt skilagjald, líkt og með gosdrykkjaílát.
 
Gafst upp á að fá sífellt nei
Í gegnum tíðina hefur Blái herinn fengið ýmsar viðurkenningar og styrki til að hreinsa strandir á Suðvesturhorninu en Tómas segir róðurinn oft hafa verið þungan við fjármögnun. Nú er hann kominn með nóg af því að fá svo oft nei við beiðnum um styrki og ætlar að reyna nýja nálgun. „Þegar öllu er á botninn hvolft þá ræð ég ekki við þetta einn. Allar þær viðurkenningar sem ég hef fengið í gegnum tíðina eru einskis verðar ef hagsmunaaðilar halda að ég ætli að gera þetta einn. Samfélagið þarf að leggjast á eitt og sveitarfélögin verða að hugsa þetta upp á nýtt og taka brosandi á móti þeim verkefnum sem bíða.“ 
 
Tómas vinnur nú að nýju verkefni sem heitir Hafskógar Bláa hersins, úr sjó í skóg. Það gengur þannig fyrir sig að sveitarfélög fá Tómas sem verkstjóra til sín í eina viku og hann stjórnar fjöruhreinsun. Fyrir hver tíu kíló af rusli sem hreinsuð eru, fá sveitarfélög afhent eitt tré. „Ég er orðinn leiður á því að sækja um styrki fyrir einstök verkefni og fá neitun. Nú ætla ég að leyfa samfélaginu og átta sig á því að vandinn eykst þegar ekki er tekið á honum. Ef sveitarfélög vilja láta hreinsa get ég komið.“ Tómas á þegar í viðræðum við fyrstu sveitarfélögin og er vongóður um að fleiri ranki við sér og láti hreinsa strendur sínar. „Ef guð lofar slæst fleira fólk í lið með Bláa hernum og hann verður sterkur til framtíðar. Ef ekki, þá étum við plastfiska í framtíðinni og seljum sömuleiðis plastfiska og þykjumst vera með hreint land, sem er bara blekking. Við sem fiskveiðiþjóð eigum að setja hreint haf í forgang.“
 
Það besta og versta úr sjónum 
Tómas stundaði köfun í fjörutíu ár, frá sextán ára aldri. Þegar hann byrjaði að kafa var þegar komið mikið af rusli í hafnir og varð það honum umhugsunarefni. „Mér fannst ekkert eðlilegt við allt þetta drasl. Svo fór ég að kenna strákum sportköfun og við fórum að draga ankeri upp úr sjónum og selja. Við tíndum líka annað rusl og leyfum fólki að sjá magnið á bryggjunni. Fyrir aurinn sem við fengum fyrir ankerin keyptum við bát og lyftibelgi til að sækja rusl. Okkur fannst þetta mjög spennandi og kölluðum okkur Bláa herinn og þannig byrjaði þetta.“
 
Á ferli sínum sem kafari sá Tómas allt það fegursta og ljótasta sem fyrirfinnst í sjónum. Hann segir ímynd Íslands um hreinleika vera blekkingu eina. „Oft eru Íslendingar að monta sig af því hvað allt sé frábært hérna en það er ekki þannig. Við erum með allt niður um okkur í umhverfismálum en það er þó aðeins að lagast núna. Íslendingar eru með ömurlegasta vistspor í heimi og ef allir myndu lifa eins og við þyrfti sjö jarðir. Við kunnum ekkert að umgangast náttúruna.“ 
 
Tómas fer tvisvar sinnum á ári í Sandvík á Reykjanesi að tína rusl. Hann segir víkina alltaf fyllast aftur af rusli, alveg sama hvað hann tíni mikið. „Þarna eru olíubrúsar, netadræsur, netakúlur og plastkassar. Allt lendir þetta í fjörunni af mannavöldum. Svo verður þetta að litlum plastkúlum sem fiskarnir éta. Eyjan Ísland er ekki í alfaraleið en samt rekur rusl hingað. Með straumum koma svo þungmálmar. Það rusl sem hent er á landi fýkur fram og til baka og endar oftar en ekki í sjónum.“
 
„Peningar eru ógeðslegir á bragðið“
Blái herinn er eitt þeirra 100 fyrirtækja sem skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í lok síðasta árs. Tómas segir það ástríðu sína að vernda jörðina enda þyki honum vænt um hana. „Það má ekki láta Excel-skjalið ráða. Það verður ekkert varið í það skjal þegar hafið og jörðin verða ónýt. Þá átta allir sig á því að peningar eru ógeðslegir á bragið. Þá verður ekkert annað eftir til að borða. Við getum gert svo mikið betur og eigum að gera svo mikið betur. Það er allt í húfi og mikilvægt að hafa í huga að grænt er vænt.“
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024