Söngleikur FS: Kraftur í krökkunum
„Æfingarnar hafa gengið rosalega vel og á morgun verður generalprufan og frumsýningin á föstudag,“ sagði Jón Marinó Sigurðsson leikstjóri söngleiksins Er tilgangur? Söngleikurinn er eftir Júlíus Guðmundsson sem fyrst var settur upp í Félagsbíói fyrir um 10 árum við góðar undirtektir. „Það hefur komið mér virkilega á óvart hvað það er mikill kraftur í krökkunum og hér eru mikil efni á ferð,“ segir Jón Marinó um leikhópinn. „Aðstaðan í 88 Húsinu er frábær, bæði stærri og betri en í Frumleikhúsinu. Þetta verður pottþétt sýning og ég hvet alla til þess að mæta því krakkar úr öllum bæjarfélögum Suðurnesja taka þátt í sýningunni,“ sagði Jón að lokum. „Er tilgangur?“ verður frumsýndur á föstudag kl. 20:00 en uppselt er á þá sýningu. Næsta sýning verður svo sunnudaginn 13. febrúar og þá eru örfá sæti laus.