Söngleikur FS í 88 húsinu
Nemendafélag Fjölbrautaskóla Suðurnesja setur upp söngleikinn „Er tilgangur?" en það var Júlíus Guðmundsson sonur Rúnars Júlíussonar sem skrifaði handritið að verkinu. Söngleikurinn var settur upp í Félagsbíói fyrir um 10 árum við góðar undirtektir en Júlli var í hljómsveitinni Pandóru sem var á þeim tíma á barmi heimsfrægðar og tónlistin í verkinu var frumsamin.
Um 40 nemendur taka þátt í sýningunni og leikstjóri er Jón Marinó Jónsson en hann var aðstoðarleikstjóri söngleiksins um Hljóma sem nemendafélagið setti upp í fyrra.
Leikhópurinn hefur komið upp æfinga- og leikaðstöðu í vöruskemmu 88 hússins þar sem komin er risavaxin leikmynd. Þar hefur einnig verið komið fyrir áhorfendapöllum sem taka meira en 100 manns í sæti. Söngleikurinn verður frumsýndur 11. febrúar og verður miðasala auglýst síðar.
Myndin: Frá æfingu hópsins í vöruskemmu 88 hússins.