Sólúrið minnisvarði um kærleika og vináttu
Sólúr var formlega vígt við Myllubakkaskóla sl. laugardag, eins og greint hefur verið frá hér á vef Víkurfrétta. Við afhendingu sólúrsins flutti Tómas Jónsson tölu og er ræða hans hér meðfylgjandi ásamt nokkrum ljósmyndum frá viðburðinum:
Bæjarstjóri. Skólastjórn, skólastjóri og kennarar Myllubakkaskóla. Sr. Björn Jónsson. Virðulega samkoma.
Ég mæli hér fyrir hönd skólasystkina minna - árgangsinns sem fæddist árið 1950 og gekk í þennan skóla á árumum 1957-1962. Við erum hér mætt til að færa skólanum að gjöf sólúr sem reist hefur verið hér, með ykkar leyfi, á skólalóðinni.
Strax frá fyrsta degi ríkti kröftug stemmning í hópnum - gáski og glaðværð, væntumþykja og virðing. Þessi stemmning hefur fylgt okkur æ síðan. Ég vil leyfa mér að fullyrða að við vorum lang-flottasti og skemmtilegasti árgangurinn, sem fæddur var á miðri síðustu öld og gekk í þennan skóla.
Við áttum því láni að fagna að hér var úrvals skólafólk sem sinnti okkur af alúð - Hermann Eiríksson, skólastjóri, systurnar Jóna og Guðlaug, Ingveldur Páls, Þorsteinn Kristinns, Nonni Steinku og fl. og fl. að ógleymdum Skúla „bjöllu“. Allt mikið sóma fólk. Með gjöfinni vill árgangurinn þakka fyrir sig og óska skólanum velfarnaðar um alla framtíð.
Svo urðum við fullorðin og fluttum okkur upp í gagnfræðaskólann. Vorið 1964 vorum við fermd af sr. Birni Jónssyni, og nú fór að hitna í kolunum og við urðum jafnvel ennþá kátari með lífið og tilveruna. Bítlarnir og Rolling Stones hófu upp rausn sína og við sungum hástöfum með.
Í dag erum við hér því samankomin til að fagna þessari gömlu vináttu okkar og fjörtíu ára fermingarafmæli. Í dag er mikill gleðidagur.
En það eru ekki allir dagar gleðidagar. Þannig er bara lífið hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Fyrir rúmu hálfu ári fylgdum við til grafar bekkjarbróður okkar og ókrýndum höfðingja hópsinns - Vilhjálmi Ketilssyni, skólastjóra Myllubakkaskóla. Hann varð okkur öllum mikill harmdauði og öllum sem til hans þekktu. Villi var einstakur karakter og hans er sárt saknað.
Við ákváðum þá að blása til endurfundar í vor, fermingarsystkinin, og hétum því að minnast Villa um leið á einhvern hátt. Sólúrið er sem sagt tileinkað minningu Villa Ketils og annarra félaga úr hópnum sem kvatt hafa. Í raun er sólúrið minnisvarði um þann kærleika og þá vináttu sem ríkti í hópnum.
Sólúrið er á skemmtilegan hátt táknrænt fyrir sköpunarkraft mannsandans - og þess vegna viðeigandi við menntastofnum sem þessa. Það eru hrein náttúruvísindi að verki, þegar sólúrið mælir hreifingar sólar frá austri til vesturs og vísar á stundir dagsinns með því að varpa skugga af priki á skífuna.
Talið er að Babyloníumenn hafi fundið upp sólúrið a.m.k. 2000 árum fyrir Krist. Sólúrið a tarna á því 4000 ára sögu að baki en er í dag hannað og framleitt af hátækni nútímans.
Þetta sólúr er reyndar þeirrar náttúru, að það er ekkert prik sem varpar skugga á skífuna, heldur er það hannað þannig að maðurinn sjálfur verður að standa og staðsetja sig inn í skífunni. Þá er það skugginn af honum sjálfum sem fellur á skífuna og vísar á stund dagsins.
Það er ósk okkar að sólúrið verði nemendum Myllubakkaskóla hvatning til dáða í náttúruvísindum - og auðvitað til gleði og yndisauka - sem og öllum öðrum sem þess vilja njóta.
Auðvitað vitum við að sólúrið nýtist illa í skammdeginu, en við vorum að gæla við þá hugmynd að stallurinn sjálfur, sem er upphitaður, gæti orðið vinsæll til samverustunda nemenda.
Það er mjög gaman að hugsa til þess að innan í sólúrinu er steyptur „hornsteinn“ og í honum er geymdur undirskriftarlisti með nöfnum og hinstu kveðju allra nemenda, kennara og starfsfólks Myllubakkaskóla til skólastjórans Vilhjálms Ketilssonar.
Vonandi myndast einhverjar hefðir eða skemmtilegheit í kringum sólúrið og hér er ein tillaga frá okkur:
13. apríl ár hvert – á afmælisdegi Villa – verði haldin hátíðleg „Óskastund á Sólúrinu“. Þá geta allir átt stutta stund með sjálfum sér á Sólúrinu og varpað sínum heitustu óskum út í alheiminn.
Ég vil svo fyrir hönd árgangsins að endingu nota tækifærið og færa þeim fjölmörgu Suðurnesjamönnum - einstaklingum og fyrirtækjum - sem studdu okkur með fjárframlögum og vinnu hjartans þakkir fyrir velviljann. Þeirra verður allra getið á formlegu gjafabréfi til skólans og í þakkarauglýsingu frá okkur í Víkurfréttum.
Ég vil þá biðja skólastjóra Myllubakkaskóla að taka við formlegu gjafabréfi frá árganginum og bið þau Sigrúnu Ólafsdóttur og Ketil Vilhjálmsson að afhjúpa sólúrið.