Sólseturshátíð í Garði um helgina
Sólseturshátíð Garðmanna verður haldin hátíðleg um komandi helgi, en hátíðin hefur verið árlegur viðburður í Garði síðan árið 2005. Um er að ræða fjölskylduhátíð sem haldin er á Garðskaga með fjölbreyttri dagskrá. Má þar nefna stuttar gönguferðir, menningar- og sögutengda fræðslu fyrir börn og fullorðna, fjöruferð, leiki og leiktæki, tónlistaratriði og málverkasýningar. Sólseturshátíðin hefst í dag, fimmtudag, og stendur til sunnudagsins. Laugardagurinn verður þó sem fyrr hápunktur hátíðarinnar en þá verður vegleg fjölskyldudagskrá á Garðskaga.
Einar Karl Vilhjálmsson, framkvæmdarstjóri Víðis sem einnig sér um öryggis- og upplýsingasíma hátíðarinnar, sagði í samtali við Víkurfréttir að allur undirbúningur gengi vel fyrir sig. „Við förum í kvöld að setja upp allt svæðið á Garðskaga. Þar eru bara sjálfboðaliðar, leikmenn félagsins, stjórn og aðrir í kringum félagið. Annars er allt annað klappað og klárt. Stemningin í bænum er þokkaleg en það eru ennþá þónokkrir í burtu úr bænum.“