Sólarsamtök skora á umhverfisráðherra
Fulltrúar Sólar á Suðurnesjum, Sólar í Straumi og Sólar á Suðurlandi héldu í dag til fundar við Þórunni Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra, í Alþingishúsinu og afhentu henni sameiginlega áskorun frá samtökunum sem fer hér á eftir:
Kæra Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra,
Við óskum þér til hamingju með embætti umhverfisráðherra og óskum þér velfarnaðar í nýju starfi.
Með bréfi þessu viljum við skora á þig að fela stofnunum þínum, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun, að draga fram og kynna fyrir almenningi heildarmynd áforma stóriðjufyrirtækja, orkufyrirtækja og orkuflutningafyrirtækja á suður- og suðvesturlandi.
Aðgengileg og skýr heildarmynd af áformunum er forsenda þess að lýðræðisleg og upplýst umræða geti farið fram á meðal landsmanna.
Allir Íslendingar eiga hagsmuna að gæta en sérstaklega þó íbúar þeirra svæða sem um ræðir.
Eftir að heildarmyndin hefur verið dregin upp og víðtæk umræða og kynning hefur farið fram teljum við eðlilegt að íbúar á svæðinu fái tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins.
f.h. Sólar í Straumi
Pétur Óskarsson
f.h. Sólar á Suðurlandi
Kolbrún Haraldsdóttir
f.h. Sólar á Suðurnesjum
Guðbjörg R. Jóhannesdóttir
Við þetta tækifæri færðu gestirnir Umhverfisráðherra þrjú sólblóm, eitt frá hverjum samtökum og óskuðu henni velfarnaðar í nýju starfi.