Sólarhringur eftir í undirskriftastöfnun - um 5500 nöfn komin á vef Víkurfrétta
Nú er aðeins sólarhringur eftir í undirskriftasöfnun hér á vf.is, þar sem niðurskurði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er mótmælt. Undirskriftirnar verða afhentar heilbrigðisráðherra á borgarafundi sem haldinn verður á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja nk. þriðjudag kl. 17:00.
Yfirlýsingin sem fólk er beðið um að skrifa undir er eftirfarandi:
Nú hefur komið í ljós að skurðstofu HSS verður lokað 1. maí næstkomandi vegna niðurskurðarkröfu heilbrigðisráðuneytisins. Einnig verður lögð niður vaktþjónusta heilsugæslulækna um helgar frá og með 1. maí næstkomandi. Þá hefur fleira starfsfólki verið sagt upp störfum og allar líkur eru á því að sykursýkismóttöku verði lokað um næstu mánaðamót og starfsfólki sálfélagsþjónustu einnig sagt upp. Fyrirhugað er að loka fyrir rannsóknir sem gerðar eru í nýju tölvusneiðmyndatæki, sem nýlega var tekið í notkun og var gjöf frá Kaupfélagi Suðurnesja.
Því mótmælum við, íbúar Suðurnesja, hver kyns skerðingu á þjónustu sem Heilbrigðisstofnun Suðurnesja veitir okkur og teljum slíkt ógna okkar lífsgæðum.
Undirskriftalistar munu liggja frammi víðsvegar á Suðurnesjum.