Sóknin ómöguleg ef þú hefur ekki trú á því að skora
-segir Gunnar Þórarinsson oddviti hjá Frjálsu Afli
Gunnar Þórarinsson hjá Frjálsu afli í Reykjanesbæ telur að skilaboðin á íbúafundinum í Stapa hafi verið góð og komist til skila. „Þeir íbúar sem ég hef heyrt í eru almennt ánægðir. Við vorum búin að leggja fundinn upp þannig að pólitíkinni yrði ekki blandað inn í þetta. Ég hef þó heyrt af því að fólk velti því fyrir sér af hverju stjórnmálin hafi ekki verið til umræðu en ég tel okkur hafa útskýrt það vel. Þarna er verið að fjalla um málefni er varða alla íbúana og snýst ekki um pólitík, heldur um að ná fjárhagslegri stöðu bæjarins á þann stað að við íbúar getum viðunað.“
Hvernig leggst Sóknin í þig?
„Vel, þetta er flott orð. Nú bítum við bara á jaxlinn, tökum á því og blásum til sóknar. Næstu skref eru að ganga frá fjárhagsáætlun þannig að hún skili okkur þeim árangri sem við stefnum að. Svo þarf að berjast fyrir auknum verkefnum og finna meiri tekjur. Við þurfum að fá íbúa og ýmsa rekstraraðila með okkur í það að efla atvinnulífið og fá þar meiri tekjur inn. Það er lífsnauðsyn. Sem betur fer er vaxandi ferðaþjónusta en það dugar hvergi, það þarf mun meira til. Það kemst enginn áfram nema með mikilli bjartsýni. Þú þarft að horfa bjartur fram á veginn. Öðruvísi skorar þú ekki. Ef þú heldur að þú getir ekki skorað þá er sóknin ómöguleg,“ segir Gunnar. Hann segir samstarf nýs meirihluta og bæjarstjóra hafa gengið ágætlega það sem af er. Risavaxið verkefni sé fyrir höndum og kappkostað að leysa það.
„Þetta er rétt eins og með rekstur heimilis, það verða allir að taka sig á og reyna að spara og finna leiðir til þess. Rétt eins og á flestum góðum heimilum þá er líka farið að leita að vinnu. Við ætlum auðvitað að leita að einhverjum tekjum líka. Við þurfum að skapa verðmæti í samfélaginu til þess að auka tekjurnar okkar. Við erum með svo mörg tækifæri til framtíðar sem geta skapað tekjur inn í samfélagið.“ Aðspurður um fortíðina og orsakir stöðunnar segist Gunnar óneitanlega velta því fyrir sér. „Óneitanlega veltir maður fortíðinni fyrir sér, það er óhjákvæmilegt. Ég vil þó frekar horfa til framtíðar og sjá hvernig við getum komið þessu í réttan farveg. Við ætlum að ná því markmiði að koma skuldaviðmiðinu undir 150% fyrir tilskilinn tíma. Það er mjög stórt atriði og mun þýða að við getum leyft okkur meira.“
Finnst þér að þú berir hluta af ábyrgðinni á því hvernig staðan er?
„Ég held að allir þeir sem hafi verið í bæjarstjórn á undanförnum árum beri einhverja ábyrgð á þessu. Hitt er annað mál að margt að því sem er að valda þessu var komið fyrir mína tíð. Sem dæmi má nefna þessar miklu skuldir við Fasteign, þessar miklu skuldir hafnarinnar og bara þetta ástand sem var þarna til staðar. Ég fór inn í þetta því ég vissi að þetta yrði erfitt á sínum tíma og vildi finna einhverjar lausnir. Auðvitað einbeittum við okkur of mikið að því að fá einhver verkefni hérna inn. Það hefur auðvitað brugðist. Við vorum með þá von í brjósti að t.d. álverið kæmi hingað. Það hefur auðvitað allt saman brugðist, af forsendum sem við ráðum ekkert við.“