Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sögulegur bæjarstjórnarfundur hjá Guðbrandi
Magnea Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks afhenti Guðbrandi blóm í tilefni áfangans.
Miðvikudagur 20. apríl 2016 kl. 17:00

Sögulegur bæjarstjórnarfundur hjá Guðbrandi

„Þessi fundur mun án efa verða einn af eftirminnilegri fundum mínum í bæjarstjórn. Þetta kom mér skemmtilega á óvart því ég hafði ekki hugmynd um tímamótin en frábært að það skyldi gerast á fundi þar sem við kynntum góðan ársreikning og fengum svona fínar fréttir úr samningaviðræðunum við kröfuhafa,“ sagði Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og oddviti Beinnar leiðar en fundur bæjarstjórnar í gær (20. apríl) var sá tvöhundraðasti hjá bæjarfulltrúanum.

Magnea Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks afhenti Guðbrandi blóm í tilefni áfangans og þakkaði hann fyrir þau en einnig Böðvari Jónssyni bæjarfulltrúa fyrir að halda utan um tölfræðilegar upplýsingar úr bæjarpólitíkinni.

Guðbrandur sat sinn fyrsta fund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 5. júní 2001, sem fulltrúi Alþýðuflokksins. Hann var aðalmaður í bæjarstjórn á átta ára tímabili, frá 2002 til 2010 og svo aftur frá 2014 þegar hann kom inn sem fulltrúi Beinnar leiðar. Guðbrandur er eini bæjarfulltrúinn sem hefur átt afturkvæmt í bæjarstjórn eftir fjarveru eitt kjörtímabil, 2010 til 2014.
Guðbrandur er hér með kominn í hóp þeirra bæjarfulltrúa sem hafa setið 200 fundi eða fleiri. Hinir eru Sveindís Valdimarsdóttir, Jóhann Geirdal, Ólafur Thordersen, Árni Sigfússon, Þorsteinn Erlingsson, Björk Guðjónsdóttir og Böðvar Jónsson, sem á metið í fundarsetu í bæjarstjórn, rúmlega 400 fundi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðbrandur á sínum 200. fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 19. apríl. VF-myndir/pket.