Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Söfnunarbaukar afhentir í Vogum
Laugardagur 4. október 2008 kl. 14:52

Söfnunarbaukar afhentir í Vogum



Í fyrsta skipti eru söfnunarbaukar verkefnis Rauða krossins, Göngum til góðs, afhentir í Vogum. Þær Jóhanna Guðjónsdóttir og Eyrún Antonsdóttir, sjálfboðaliðar Rauða krossins, afhentu bauka til Vogabúa í dag. Þær eru með aðstöðu í N1 og ætla að vera til kl. 16.  

Fólk er hvatt til að fá sér hressandi göngutúr í góða veðrinu og Ganga til góðs.


Á heimasíðu Rauða krossins kemur fram að fjölmargir sjálfboðaliðar hafa svarað kalli og víða um land er söfnun að ljúka þar sem göngufólk hefur þegar tekið hús á öllum heimilum á svæðinu.

Hver og einn göngumaður þarf aðeins að gefa um 1-2 klukkustundir af deginum til að hjálpa Rauða krossinum við að sameina fjölskyldur sem sundrast hafa vegna stríðsátaka í Kongó. Í Reykjanesbæ voru baukar afhentir að Smiðjuvöllum 8 og í Grindavík að Hafnargötu 13.

Landssöfnun Rauða krossins „Göngum til góðs” er haldin annað hvert ár og er öllu fé sem safnast varið til langtímaverkefna Rauða krossins sem að þessu sinni er sameining fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. Söfnunin er frábrugðin öðrum fjársöfnunum félagsins þar sem ekki einungis er verið að leita til almennings um fjárstuðning heldur einnig að virkja fólk til að sýna samstöðu sína með verðugu málefni í verki með því að gerast sjálfboðaliðar eina dagsstund.

Verndari söfnunarinnar er Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024