Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Snyrtilegri ásýnd og það sem þykir skara fram úr verðlaunað
Laugardagur 14. október 2023 kl. 06:09

Snyrtilegri ásýnd og það sem þykir skara fram úr verðlaunað

Umhverfisviðurkenningar 2023 veittar í Reykjanesbæ

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar veitir árlega viðurkenningar í umhverfismálum og hvetur alla íbúa og fyrirtæki til þess að leggja sitt að mörkum þegar kemur að umhverfismálum og snyrtilegri ásýnd sveitarfélagsins. Íbúum gafst kostur á að tilnefna þá sem þeim þykir skara fram úr og voru tilnefningar í ár fjölmargar og virkilega úr vöndu að velja.

Í stýrihópnum í ár voru þau Jóhann Gunnar Sigmarsson og Sigrún Inga Ævarsdóttir. Þeim til halds og trausts voru þær Margrét Lilja Margeirsdóttir og Berglind Ásgeirsdóttir, starfsmenn umhverfis- og framkvæmdasviðs.   

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hafnargata 74

Viðurkenning fyrir vel heppnað viðhald á eldra húsi. Guðrún Inga Sigurðardóttir og Robert Qyra tóku á móti viðurkenningunni. Hafnargata 74 er fyrirmynd fyrir nærliggjandi hús.

Hraunsvegur 6

Viðurkenning fyrir fallegan og velviðhaldinn einkagarð, með fjölbreyttu plöntu- og gróðurúrvali. Sigurjón Þórðarson og Guðfinna Arngrímsdóttir tóku við viðurkenningunni. Hraunsvegur 6 hefur hlotið umhverfisviðurkenningu tvisvar sinnum áður. Garðurinn er prýði fyrir hverfið og er ævintýralegt að sjá fjölbreytt plöntu- og gróðurúrval.

Dalsbraut 2

Viðurkenning fyrir snyrtilega fjölbýlishúsalóð með djúpgámum. Tilnefning kom frá íbúa Reykjanesbæjar.

Þrastartjörn 15

Viðurkenning fyrir mjög fallegan og snyrtilegan garð. Lárus Óskar Lárusson og Guðleif Arnardóttir tóku við viðurkenningunni. Tilnefning kom frá íbúa Reykjanesbæjar og hlaut tilnefningin flest atkvæði.

Skógarbraut 946

Viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi fyrirtækis. Framkvæmdir á lóð Skógarbrautar 946 er fyrirmynd fyrir önnur fyrirtæki á Ásbrú. Pálmi Freyr Randversson tók við viðurkenningunni fyrir hönd Kadeco.

Bergrún Ósk Ólafsdóttir

Viðurkenning fyrir frumkvæði í sjálfbærnimálum og þátttöku í hringrásarhagkerfinu.

Bergrún Ósk Ólafsdóttir, sem starfaði áður sem verkefnastjóri Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ, hefur verið í fararbroddi í sjálfbærnimálum. Þegar hún setti upp textílverkefni Hjálpræðishersins var um 30% af textíl í endurnýtingu til sölu í verslunina og um 70% sem féll í landfyllingu erlendis. Eftir að verkefnið hófst þá varð sá textíll sem féll í landfyllingu um 30%. Textílinn var nýttur sem endurhönnun sem varð að söluvöru í versluninni.

Bergrún Ósk setti upp verkefnið Mataraðstoð gegn matarsóun árið 2021 sem varð til þess að samstarfssamningur var gerður árið 2022 við Samkaup en Samkaup gefur Hjálpræðishernum mat og aðrar nauðsynjavörur sem til falla. Sjálfboðaliðar hjá Hjálpræðishernum á Ásbrú elda svo alla virka daga úr því heitan mat og gefa áfram til þeirra sem þurfa á aðstoðinni að halda.

Bergrún Ósk hlaut styrk Andrýmis í sumar og bar verkefnið heitið „Leiðin að Hernum“. Markmið verkefnisins var að stuðla að virkni og sjálfbærni, ásamt því að bæta umhverfisásýnd á Ásbrú. Verkefnið hefur það að leiðarljósi að endurnýta sem mest af hráefni og stuðla þar með að minnkun á kolefnissporum og gefa hlutum sem annars væri hent nýtt líf.

Bergrún vildi þar með sýna að með því að gefa hráefnum nýtt líf samhliða því að efla þátttakendur í virkni, valdefla þau og styrkja í leik og starfi væri markmiði verkefnanna náð. BYGG og Dalsgarður gáfu einnig gjafir til verkefnisins sem nýttust afar vel.

Bergrún Ósk starfar í dag sem verkefnastjóri umhverfis og samfélags hjá Samkaup.