Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Snyrtifræðin snýst mikið um mannleg samskipti
Kara Björk Bessadóttir, snyrtifræðingur.
Fimmtudagur 11. febrúar 2016 kl. 06:20

Snyrtifræðin snýst mikið um mannleg samskipti

- Kara Björk hlaut viðurkenningu Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur

Kara Björk Bessadóttir snyrtifræðingur fékk um síðustu helgi viðurkenningu frá Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur á nýsveitahátíð félagsins í Ráðhúsi Reykjavíkur. Viðurkenninguna fékk hún fyrir framúrskarandi árangur og handverk á sveinsprófi í snyrtifræði. Kara er úr Grafarvogi en flutti í Reykjanesbæ fyrir fimm árum síðan þegar hún kynntist kærastanum sínum, Aroni Kristinssyni. Hún segir það mjög hvetjandi að hljóta slíka viðurkenningu. „Þetta er mikill heiður og það var virkilega gaman að fá þessi verðlaun,“ segir Kara sem strax er farin að huga að frekara námi. „Nú er boðið upp á nám í fótaaðgerðafræðum hjá Keili og það finnst mér mjög spennandi. Svo er ég að stefna að því að hefja meistaranám í snyrtifræði í haust. Mér finnst það vera rökrétt framhald af sveinsprófinu.“
 
Kara er 23 ára og starfar á Snyrtistofunni Lipurtá í Hafnarfirði. Þar hefur hún verið frá árinu 2013 og lauk verklegum hluta námsins þar. Kara segir námið og starf snyrtifræðingsins mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Verknámið tekur tvö ár og áður þarf að ljúka undanförum í bóklegu námi, eins og heilbrigðisfræði og lífefnafræði. Kara hefur lengi haft áhuga á snyrtifræði og litaði sig alltaf og plokkaði sjálf. „Ég vissi samt ekki alveg hvað ég var að koma mér út í með náminu. Snyrtifræðingar eru í rauninni húðsérfræðingar. Þetta er miklu meira og dýpra nám en fólk almennt gerir sér grein fyrir.“ Kara segir snyrtifræðina einnig mikið snúast um mannleg samskipti. „Stundum hugsa ég með mér að það ætti að vera meiri grunnur í sálfræði í náminu. Sem snyrtifræðingur er maður kominn rosalega nálægt fólki, það slakar vel á og opnar sig þá oft um hin ýmsu málefni. Þá þarf maður að passa sig að vera góður hlustandi en ekki endilega að gefa ráðleggingar.“
 
 
Kara með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, við afhendingu viðurkenningarinnar um síðustu helgi.
 
 
Frá vinstri Elsa Haraldsdóttir formaður Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur, Kara Björk, Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Þórhalla Ágústsdóttir meistari Köru og Guðmundur Ó. Eggertsson, heiðursfélagi Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024