Snjóar allt um kring – útlit fyrir rauð jól
Mikið fannfergi og óveður herjar á lönd beggja megin Atlantsála. Samgöngur í Evrópu eru allar úr skorðum og fjöldi fólks kemst ekki heim um jólin. Þá hefur vetur bitið hressilega á austurlandi og norðlendingar hafa fengið sinn snjó. Hér á Suðvesturhorninu hefur hins vegar ekki fallið snjókorn og flest sem bendir til rauðra jóla í ár. Hugsanlega gæti þó einhver snjómugga fallið í lok vikunnar. Frost verður áfram sem herðir nokkuð um miðja vikuna.
Veðurhorfur fyrir Faxaflóa næsta sólarhringinn:
Norðan 5-13 m/s og sums staðar hvassara í vindstrengjum. Léttskýjað að mestu og frost 0 til 6 stig.
Veðurhorfur á höfuðborgarsvæðinu:
Lengst af norðan 8-13 m/s, léttskýjað og frost 1 til 6 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á þriðjudag:
Norðan 8-15 m/s, hvassast við suður- og austurströndina og él eða snjókoma norðan- og austanlands, en léttskýjað annars staðar. Frost 2 til 10 stig.
Á miðvikudag (Þorláksmessa):
Norðlæg átt, víða 5-13 m/s með éljum, en bjart að mestu á sunnanverðu landinu. Áfram kalt í veðri.
Á fimmtudag (aðfangadagur jóla):
Norðaustan strekkingur með snjókomu á Vestfjörðum, annars hægari norðaustlæg átt og él, en yfirleitt úrkomulaust og bjart sunnantil á landinu. Frost um allt land.
Á föstudag (jóladagur), laugardag (annar í jólum) og sunnudag:
Útlit fyrir austlæga átt með dálítilli snjókomu eða slyddu sunnan- og austanlands, stöku él á Norðurlandi, en annars staðar úrkomulítið. Hlýnar heldur í veðri.