Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Snillitímar í Gerðaskóla tilnefndir til menntaverðlauna
Þriðjudagur 6. október 2020 kl. 12:59

Snillitímar í Gerðaskóla tilnefndir til menntaverðlauna

Snillitímar í Gerðaskóla, þróunarverkefni sem beinist að því að efla frumkvæði nemenda í námi með því að gefa þeim kost á að fást við skapandi verkefni á eigin áhugasviði hafa verið tilnefndir til Íslensku menntaverðlaunanna 2020 undir liðnum Framúrskarandi þróunarverkefni.

Bryddað var upp á Snillitímum í Gerðaskóla fyrir tveimur árum að frumkvæði eins kennara við skólann. Markmið verkefnisins er að efla frumkvæði nemenda, sköpunargáfu og færni í að nota mismunandi efni, verkfæri og miðla. Í byrjun voru snillitímarnir fyrir nemendur á miðstigi en á þessu skólaári er verið að þróa snillitíma með nemendum á yngsta stigi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Snillitímar eru á stundatöflu tvisvar í viku, alls fjórar kennslustundir. Námið fer fram í verkgreinastofum, kennslustofum nemenda og í sal skólans. Í snillitímunum velja nemendur sér viðfangsefni út frá eigin áhuga og með það að markmiði að úr verði afurð sem þeir kynna fyrir öðrum í lokin. Þeir afla sér upplýsinga um viðfangsefnið og halda utan um vinnuferlið með nokkurs konar skýrsluskrifum. Nemendur þurfa að verða sér úti um verkfæri og efnivið til þess að búa til afurð og hafa frelsi til þess að velja og útfæra verkefnið eins og þeir vilja. Það er leyfilegt að gera mistök og gengið út frá því að nemendur dragi ályktanir og lærdóm út frá þeim. Yfir veturinn er haldin kynning í tvö til þrjú skipti þar sem nemendur sýna og segja frá verkefnum sínum, bæði því sem heppnaðist vel og því sem ekki tókst sem skyldi. Foreldrum og öllum áhugasömum í nærsamfélagi skólans er boðið á kynninguna.

Foreldri við skólann lýsir verkefninu með þessum orðum: „Sem foreldri hef ég fylgst með [barni mínu] blómstra í verkefnavinnu og fyllast stolti þar sem [hann/hún] kynnir verkefni sín. Á kynningunum fá foreldrar og aðrir áhugasamir tækifæri til þess að heimsækja skólann sem styrkir tengsl heimila og skóla. Nemendur eru hvattir til þess að biðja fjölskyldu og vini um aðstoð við efnisöflun sem gefur samfélaginu tækifæri til að tengjast námi nemenda. Skólinn á hrós skilið fyrir að gefa verkefninu fastan sess í stundaskrá og gefa verkefninu færi á að þróast og verða hluti af skólastarfinu. Sem foreldri hef ég séð mikinn mun á áhuga [barnsins míns] á náminu eftir að verkefnið hófst. Snillitímar ýta undir skapandi hugsun og nýsköpun og [barnið mitt] fær tækifæri til þess að efla listræna hæfileika sína og styrkja í leiðinni lestur, ritun, upplýsingalæsi, rökhugsun og svona mætti lengi telja.“

Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði og í samantekt til sjóðsins var verkefninu lýst á eftirfarandi hátt: „Snillitímar eru stórkostlegt verkfæri sem gefa nemendum tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum við nám.“

Hér að neðan er sjónvarpsinnslag um snillitíma úr Suðuðrnesjamagasíni fyrir tveimur árum.