Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Smurðar keðjur og kynlíf á bókasafninu
Þriðjudagur 16. maí 2017 kl. 06:06

Smurðar keðjur og kynlíf á bókasafninu

- ásamt ritsmiðju fyrir börn á aldrinum 9-13 ára

Það verður kjaftað um kynlíf á foreldramorgni á Bókasafni Reykjanesbæjar á fimmtudagsmorgun kl. 11:00, en þá kemur Sigga Dögg í heimsókn.
 
Foreldramorgnar hafa nú verið á dagskrá alla fimmtudaga í vetur í Bókasafni Reykjanesbæjar. Sigga Dögg ætlar að ljúka vetrardagskrá foreldramorgna með því að fjalla um hvernig við getum rætt um kynlíf við börn og kynlíf eftir barnsburð. Formleg dagskrá Foreldramorgna hefst aftur í september en foreldrar eru hvattir til að vera duglegir að heimsækja Bókasafnið í sumar með börnunum sínum. 
 
Nú er sumarið handan við hornið og margir taka hjólin sín aftur í notkun eftir veturinn og jafnvel enn fleiri farnir að hjóla um bæinn. Helgi úr hjólabúðinni kemur í Bókasafn Reykjanesbæjar laugardaginn 20. maí frá klukkan 12:00-14:00. Hann mun yfirfara hjól, pumpa í dekk og smyrja keðjur. Börn og fullorðnir eru hvattir til að nýta sér þessa frábæru þjónustu fyrir sumarið.
 
Þriðjudaginn 6. júní klukkan 09:30 hefst ritsmiðja með Gerði Kristnýju. Vikuna 6.-9. júní verður ritsmiðja í Bókasafni Reykjanesbæjar með rithöfundinum Gerði Kristnýju. Hún hefur m.a. skrifað barnabækurnar um Prinsessuna á Bessastöðum, Land hinna týndu sokka og Dúkku. Ritsmiðjan er hugsuð fyrir börn á aldrinum 9 til 13 ára. Ritsmiðjan hefst þriðjudaginn 6. júní klukkan 09:30 og verður til klukkan 12:00, alla dagana. Skráning í ritsmiðjuna er í afgreiðslu Bókasafns Reykjanesbæjar og á heimasíðu safnsins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024