SMS-in besta forvörnin
Lögreglumaðurinn og einn af bæjarfulltrúum Grindavíkur, Hjálmar Hallgrímsson hefur haft í nægu að snúast síðan eldgosið hófst, bæði í dagvinnunni og líka sem bæjarfulltrúi en Hjálmar situr í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og myndar meirihluta ásamt Framsókn og Rödd unga fólksins.
Hjálmar fór fyrst yfir lögreglumálin. „Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Munurinn á þessu gosi og hinum tveimur eru þessir gróðureldar sem við lentum í og eru að setja allt á annan endann. Í þessari þurrkatíð og norðanátt er mjög erfitt að eiga við svæðið, þess vegna verðum við að hafa lokað að gosstöðvunum núna enda er ekkert að sjá vegna reyks. Ég fór upp eftir áðan og það sést einfaldlega ekki neitt og því ástæðulaust fyrir fólk að gera sér ferð. Sem betur fer er fólk að fara eftir tilmælum okkar, ég varð ekki var við neina áðan á gossvæðinu enda er ekki hægt að vera þar nema með grímu. Textaskilaboðin sem fólk fær þegar það keyrir inn á svæðið, er í raun besta forvörnin. Slökkviliðsmennirnir sem eru að störfum núna og ná vonandi að stoppa gróðureldana, eiga erfitt með að fóta sig við þessar aðstæður svo ég legg aftur áherslu á það við fólk, að halda sig fjarri enda er ekkert að sjá.
Hvernig kemur þetta við Grindavíkurbæ? „Skipulagssviðið hjá Grindavíkurbæ hefur verið í mikilli vinnu sem hófst þegar fyrsta gosið byrjaði. Þá þurfti að skipuleggja gönguleiðir og tryggja öryggi, sú vinna datt að mestu niður eftir seinna gosið en nú er allt komið á fullt aftur en þetta gos er heldur norðar og því þarf að skipuleggja og laga Merardalaleiðina núna.
Umferðin til Grindavíkur er svipuð og hún var í fyrri gosum myndi ég segja. Tjaldsvæðið okkar er nánast alltaf fullt og hefur í raun verið allt þetta ár, fólk hefur verið að kíkja á gosstöðvarnar og kíkja á hraunið sem varð til eftir fyrri gosin, umferðin hefur síðan eðlilega aukist eftir að gosið hófst. Ef það væri opið að gosstöðvunum núna væri miklu meiri umferð svo ég myndi segja að þetta sé svipað og áður, það er sami áhugi held ég.
Ég vil minnast í lokin á flottan styrk ríkisstjórnarinnar til Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, það er frábært að sjá að ríkisvaldið sé tilbúið að styðja svona við hið óeigingjarna starf sem björgunarsveitarfólkið vinnur. Eins vil ég minnast á hina flottu aðstoð frá öðrum slökkviliðum, sem eru að aðstoða okkar slökkvilið á gosstöðvunum, það er frábær samvinna í gangi og allir eru að leggjast á eitt til að ráða við þetta,“ sagði Hjálmar.