Smáralindin þjóni íbúum Suðurnesja
Ákvörðun um lokun Hagkaupa í Njarðvík var tekin fyrir stuttu og segir Finnur Árnason framkvæmdastjóri Hagkaupa að verslunarumhverfi fyrirtækisins hafi breyst: „Með opnun Smáralindar breyttust forsendurnar fyrir áframhaldandi rekstri Hagkaupa í Njarðvík. Okkar meginbúðir eru frá 5 til 10 þúsund fermetrar og undir merkjum Hagkaupa viljum við vera með mikið vöruúrval. Okkar mat var það að breytingar á versluninni í Njarðvík yrðu of kostnaðarsamar til að við gætum mætt þessum þörfum. Við teljum að Smáralindin muni þjóna íbúum Suðurnesja.“ Finnur segir að ekki hafi orðið mikill samdráttur í verslun Hagkaupa með opnun Smáralindar. Hann segir að öllu starfsfólki verði sagt upp en reynt verði að finna störf handa starfsfólki: „Við munum reyna að finna störf handa starfsfólkinu í verslunum Hagkaupa á höfuðborgarsvæðinu. Við lofum samt engu en munum gera okkar besta,“ sagði Finnur í samtali við Víkurfréttir.