Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 5. febrúar 1999 kl. 21:52

SMÆLKI ÚR BÆJARSTJÓRN REYKJANESBÆJAR

Stefnumótun í innkaupa- og útboðsmálum Nýlega lagði bæjarráð Reykjanesbæjar til að skipaðir yrðu þrír starfsmenn bæjarins í stjórn innkaupadeildar til næstu tveggja ára. Voru það fjármálastjóri, framkvæmdastjóri MOA og einn úr hópi leikskólastjóra. Stjórnin mun starfa í umboði bæjarráðs og tæknideildin mun leggja hinni nýju stjórn til starfskrafta. Framkvæmda- og tækniráð mun fara með eftirlit þegar innkaupa- og verksamningar hafa verið gerðir. Fulltrúi minnihlutans í bæjarráði, Kristmundur Ásmundsson, gerði fyrirvara um skipanina og á síðasta bæjarstjórnarfundi taldi hann eðlilegra að fulltrúi skólamálaskrifstofu hefði verið settur í stjórnina í stað leikskólastjóra, þar sem um tæpur helmingur útgjalda bæjarins væri tilkominn vegna menntamála. Jóhann Geirdal tók undir sjónarmið félaga síns og sagði þetta ekki vanmat á störf leikskólastjóra, heldur ættu menn að vinna eftir skipuriti bæjarins og þar lægi ábyrgð rekstarfulltrúans á skólamálaskrifstofu ofar leikskólastjóra. Jónína Sanders tók upp hanskann fyrir leikskólastjóra og sagði meirihlutann lýsa fullu trausti á þá og bæjarstjórinn bætti við, að í þessu tilliti væri verið að taka sjónarmið þeirra sem neðar væru í skipuritinu. Framkvæmdaáætlun á næstu grösum Gert er ráð fyrir að 3ja og 10 ára framkvæmdaáætlun Reykjanesbæjar líti dagsins ljós í febrúar að sögn forseta bæjarstjórnar, Skúla Skúlasonar. Minnihluti bæjarstjórnar bókaði mótmæli sín á síðasta bæjarstjórnarfundi vegna seinagangs áætlunarinnar og því hve lítinn skilning meirihlutinn hefði á slíkum áætlunum. Töldu þeir að um brot á sveitarstjórnarlögum væri að ræða en samkvæmt þeim, skal semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Áætlunin skuli vera rammi um árlegar fjárhagsáætlanir og skal hún unnin og afgreidd af sveitarstjórn innan eins mánaðar frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar. Áskorun um uppbyggingu menningarhúss Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sendi nýverið áskorun til ríkisvaldsins vegna fyrirhugaðrar byggingar menningarhúsa á landsbyggðinni. Þar segir að vegna fram kominna hugmynda stjórnvalda um uppbyggingu menningarhúsa víðs vegar um landið, vekji það athygli bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að Suðurnesin skuli ekki vera inn á þessari áætlun. Bæjarstjórnin skorar á stjórnvöld að endurskoða áætlunina með það að markmiði að Suðurnesin sitji við sama borð og aðrir stórir þéttbýliskjarnar á landinu. Með þessari áskorun fylgdi síðan greinargerð og skrifuðu allir bæjarstjórnarfulltrúar undir áskorunina. Samningar um Seltjörn Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur ákveðið að ganga til samninga við Jónas Pétursson vegna mannvirkja við Seltjörn. Lagt er til að Jónas haldi leigutíma í tvö ár eða út árið 2000 en bæjarstjóra er falið að semja um verðlag og greiðsluskilmála vegna mannvirkjanna og leggja það fyrir bæjarráð. Jónína Sanders ítrekaði við minnihluta bæjarstjórnar, sem gerði fyrirvara um allt málið, að bærinn væri ekki bundinn af einu eða neinu þó sest væri að samningaborði. Samið við Léttsteypuna Framkvæmda- og tækniráð Reykjanesbæjar hefur lagt til við bæjarráð að gerður verði tveggja ára einingaverðsamningur við Léttsteypu Suðurnesja um hellukaup fyrir bæinn. Einnig hafa verið lagðar fram þrjár tillögur að nýju stöðvarhúsi fyrir dælu- og hreinsistöð fyrir fráveitu í Njarðvík samkvæmt teikningum frá Teiknistofunni Örk. Hefur ráðið komið sér saman um eina þeirra og hefur tillögunni verið vísað til bæjarráðs. Ráða bókasafnsfræðing Menningar- og safnaráð Reykjanesbæjar hefur gert athugasemd við að laun skjalavarðar séu á bókhaldslykli bókasafnsins, þar sem skjalasafnið hefur sér bókhaldslykil. Ráðið ítrekar þá kröfu sína um að ráðinn verði bókasafnsfræðingur svo safnið geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt nýjum lögum. Undanfarin ár hefur starfsemi safnsins aukist mikið og enn er farið fram á meiri þjónustu án þess að viðbótar starfskraftur fáist. Minnir ráðið á auknar tekjur safnsins vegna hækkunar á gjaldskrá og því séu litlar líkur á að ráðning bókasafnsfræðings valdi verulegum halla á bæjarsjóði. Þá var einnig samþykkt erindi íþrótta- og tómstundafulltrúa þar sem óskað var eftir því að tómstundastarf aldraðra fengi afnot af eldhúsinu á Vesturbraut 17 fyrir keramik aðstöðu, svo fremi sem leikfélaginu yrði tryggð aðstaða í kjallara hússins. Bæjarstjórn hlíft Tómstunda- og íþróttaráð Reykjanesbæjar þakkaði bæjarstjórn nýverið fyrir að hlífa ráðsmönnum fyrir ákvarðanatöku um breytingar á gjaldskrá íþróttamannvirkja og félagsmiðstöðva. Bæjarstjórnin fékk og sérstakar þakkir fyrir að veita ráðsmönnum og þá bæjarbúum öllum væntanlega, rúman tíma til kaupa á afsláttar- og árskortum á eldra verði en sá tími rann að vísu út nú um mánaðarmótin.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024