Smábátahöfninni í Gróf lokað tímabundið vegna óveðursskemmda
Smábátahöfnin í Gróf verður lokuð næstu daga vegna skemmda sem urðu í óveðri aðfaranótt síðasta þriðjudags. Flotbryggjur slitnuðu lausar og fimm tonna steypt ból sem bryggjurnar eru festar við neðansjávar færðust til í veðrinu.
Halldór Karl Hermannsson, hafnarstjóri Reykjaneshafnar, sagði í samtali við Víkurfréttir á þriðjudag að mikil ölduhæð í hafinu við Reykjanesskagann hafi áhrif í öllum höfnum á svæðinu.
Mikið sog myndaðist í smábátahöfninni og sveiflan mikil. Þannig voru flotbryggurnar að lyftast um einn og hálfan metra þegar fyllurnar komu inn í hafnarkjaftinn. Um miðjan dag á þriðjudag var hægur vindur en smábátahöfnin var á sama tíma sem kraumandi suðupottur og mikil hreyfing á flotbryggjunum.
Að sögn hafnarstjórans verður ekki hægt að skoða skemmdir neðansjávar fyrr en á fimmtudag (í dag) þar sem sjórinn í höfninni er gruggaður eftir veðrið síðustu daga og það tekur tíma fyrir gruggið að setjast. Hafnarstjórinn gerir ráð fyrir að tjónið sé talsvert og gæti verið á annan tug milljóna króna.
Í myndskeiði með fréttinni má sjá hreyfinguna sem var í höfninni. hluti af myndskeiðinu er sýndur á meiri hraða til að sýna betur áhrif hreyfingarinnar á flotbryggurnar. Í myndskeiðini má m.a. sjá þegar göngubrú yfir á bryggjurnar fer út af bryggjunni þegar flotbryggjan tekur á rás í einni fyllunni sem kom inn í höfnina.