Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sluppu ómeiddir frá bruna um borð í Ósk KE-5
Mánudagur 25. október 2004 kl. 23:10

Sluppu ómeiddir frá bruna um borð í Ósk KE-5

Eldur kom upp í línubátnum Ósk KE-5 um fjögur leytið í dag þar sem hann var staddur um 15 sjómílur norður af Garðskaga. Þrír menn eru í áhöfn bátsins og þá sakaði ekki. Báturinn sendi út neyðarkall og var Happadís KE-83 þá stödd nálægt og tók Óskina í tog.
Að sögn Gunnars Magnússonar skipverja á Ósk KE urðu þeir varir við mikinn reyk í stýrishúsi bátsins en sáu ekki eld. „Við lokuðum hurðinni og höfum sjálfsagt kæft eldinn,“ sagði Gunnar í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Gunnar segir að þeir hafi gert björgunarbátinn tilbúinn til notkunar. „Við komumst ekki í fjarskiptatæki en í björgunarbátnum var neyðarsendir sem við gátum notað,“ segir Gunnar en báturinn lagðist að bryggju um tíuleytið í kvöld. Björgunarsveitin Suðurnes var kölluð út á björgunarbátnum Nirði og tók báturinn Ósk KE í tog við Helguvík og dró til hafnar í Keflavíkurhöfn.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var með mikinn viðbúnað við Keflavíkurhöfn þegar Ósk KE lagðist að bryggju. Jón Guðlaugsson aðstoðarslökkviliðsstjóri sagði að það væri alltaf mikil hætta á ferðum þegar eldur kviknar um borð í bátum. „Það myndast oft miklar eiturgufur í eldsvoðum út á sjó og viðbúnaður slökkviliðsins er alltaf mikill við svona aðstæður. Við komum búnaði okkar fyrir á bryggjunni og sendum reykkafara niður til að kanna aðstæður og um leið reykræstum við stýrishúsið,“ sagði Jón í samtali við Víkurfréttir.

Einar Magnússon útgerðarmaður og eigandi bátsins sagði í samtali við Víkurfréttir að mestu máli skipti að áhöfn bátsins kæmi heil út úr þessu. „Það skiptir mestu máli að mennirnir sleppa ómeiddir. Aðspurður segir Einar að skemmdir um borð í bátnum væru miklar. „Allt sem ætti að vera hvítt er svart og allt innanstokks er sviðið og ónýtt,“ sagði Einar í samtali við Víkurfréttir.

Myndir: Ósk KE-5 kemur til hafnar við Keflavíkurhöfn um tíuleytið í kvöld. Reykkafarar voru sendir niður í stýrishús bátsins til að kanna aðstæður og reykræstu þeir stýrishúsið um leið. Miklar skemmdir urðu á stýrishúsinu og stýristækjum. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024