Slösuðust við tökur á FOOF
Tökur eru ekki fyrr hafnar á stórmynd Clints Eastwoods í Sandvík en óhöppin dynja þar á. Tveir menn slösuðust í dag.
Fyrra atvikið átti sér stað skömmu eftir hádegi. Maður sem starfar við tökurnar var á einum prammanna sem notaðir eru. Prammarnir eru bensíndrifnir og andaði maðurinn að sér einhvers konar gufu eða reyk sem talið er að hafi verið útblástur og missti miðvitund. Hann mun hafa brennst í andliti og var fluttur í skyndingu til Keflavíkur til aðhlynningar. Óttast var að hann hefði fengið slæma eitrun.
Seinna atvikið varð þegar hópur manna var á öðrum pramma og ætlaði einn þeirra að stökkva af honum. Hann mun hafa runnið til og rekið sig illa í. Talið var að hann hefði lærbrotnað en svo reyndist ekki vera.
Björgunarsveitir eru með viðbúnað á tökustað til að vera tökuliðinu til aðstoðar. Töluvert er um að vera í Sandvíkinni en tökumenn flugu yfir svæðið í gærkvöldi, tveimur tímum áður en flugbann tók þar gildi.
Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.
VF-mynd/Tekin úr flugi: Atli Már