Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 19. september 2001 kl. 09:36

Slökkviliðsmenn ætla að taka á því um helgina

Sjúkraflutningamenn Brunavarna Suðurnesja fóru í 17 útköll í vikunni, þar af eitt alvarlegt umferðarslys sl. sunnudag. Íþróttadagur allra slökkviliða á landinu verður haldin hátíðlegur nk. laugardag í Keflavík og slökkviliðsmenn BS hafa verið duglegir við að skrá sig og ætla að taka vel á því á laugardaginn.


Alvarlegt umferðaslys varð á Reykjanesbraut sl. sunnudag en þá hafði maður ekið út af Reykjanesbrautinni í grennd við Grindavíkurafleggjara. Ökumaður var einn í bílnum og var fluttur á Landspítalann í Fossvogi.
Barn féll fram af stiga í Heiðarskóla sl. mánudag en fallið var um tveir og hálfur meter. Barnið var flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar.
Að sögn Gísla Viðars Harðarsonar aðalvarðstjóra BS, var vikan fremur róleg. Engin brunaútköll komu á slökkviliðið en það fór í að dæla vatni úr Gullborg VE sl. laugardag sem staðsett er í Njarðvíkurhöfn. „Gullborg VE er eikarbátur frá Vestmannaeyjum um 100 tonn. Við dældum úr vélarrúminu og verkið gekk vel“, segir Gísli Viðar.
Starfsmenn Brunavarna Suðurnesja taka þátt í íþróttadegi nk. laugardag 22. september sem haldin verður í samvinnu við önnur slökkvilið á landinu. Kappleikirnir fara fram á slökkvistöðinni og í Reykjaneshöllinni. „Við höfum verið með fótboltadag fram að þessu en langaði til að breyta til. Nú verður keppt í fitness, vítakeppni, reiptogi, skallatennis, upphýfingum og dýfum og fleiru. Slökkviliðsmenn hjá BS hafa verið duglegir við að skrá sig í keppnina og mér hefur heyrst að undirtektir séu ágætar annars staðar á landinu. Tilgangur slíkra móta er að hitta félaga annars staðar að og virka hvetjandi á menn að halda sér í góðu líkamlegu formi en við æfum allir hjá Siggu í Perlunni“, segir Gísli Viðar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024