SLÖKKVILIÐ VARNARLIÐSINS FÆR ÆÐSTU VERÐLAUN
Slökkvilið á Keflavíkurflugvelli tók í gær við æðstu verðlaunum á sviði brunavarna sem slökkviliðið vann nýlega í árlegri keppni allra slökkviliða Bandaríkjaflota. Það var David Architzel, flotaforingi og æðsti yfirmaður varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem afhenti verðlaunin. Jafnframt voru slökkviliðsmönnum afhent starfshæfnisskírteini Brunamálastofnunar Íslands og Brunamálastofnunar Bandaríkjanna.Í slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli eru 128 íslenskir starfsmenn. Níutíu þeirra annast burnavarnir allra mannvirkja á varnarsvæðunum, þ.m.t Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og 38 starfa í flugþjónustudeild. Rík áhersla er lögð á öflugt eldvarnaeftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir með víðtækri notkun follkomins viðvörunar- og slökkvibúnaðar með þeim árangri að tjón af völdum bruna hefur verið hverfandi litð á Keflavíkurflugvelli mörg undanfarin ár. Annar þáttur starfsseminnar er viðbúnaður vegna öryggis- og björgunarþjónustu við herflugvélar sem og aðrar flugvélar, farþega og áhafnir og auk þess sér slökkviliðið um hreinsun hættulegra efna, fermingu og affermingu herflutningavéla, afgreiðslu og þjónustu við herflugvélar sem leið eiga um völlinn, rekstur sérstaks öryggisbúnaðar er stöðvar orrustuþotur í lendingu að ógleymdum ísvörnum og snjóruðningi á athafnasvæði flugvéla á Keflavíkurflugvelli sem er um 1,6 milljón fermetra að stærð.