SLÖKKVIBÍLL FRÁ 21. ÖLDINNI
Brunavarnir Suðurnesja hafa undanfarnar vikur haft til umráða nýja slökkvibifreið frá Scania sem vonir standa um að geti orðið eign Suðurnesjamanna í byrjun nýrrar aldar. „Ástand og aldur slökkvibifreiða og búnaður slökkviliða er víða bágborinn og mjög ábótavant. Mikil þörf á stóru átaki í þeim efnum, gömlu Bedford slökkvibílarnir voru góðir en endast ekki til eilífaðar. Í maí 1998, skipaði stjórn Sambands sveitarfélaga og Eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands sameiginlegan starfshóp skipuðum fagaðilum til að gera tillögur um fyrirkomulag magninnkaupa á tækjabúnaði fyrir slökkvilið í landinu og huga að því hvernig bæta mætti brunavarnir almennt. Nú liggja fyrir tilboð söluaðila og er verið að vinna úr þeim gögnum. Fyrr á árinu var samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að veita rúmum 8 milljónum á ári, næstu 3 ár, til endurnýjunar á tækjakosti BS og er stefnt að því að nýr slökkvibíll komi hingað árið 2000. Verð á almennum slökkvibíl án búnaðar er um 14 milljónir. Búnaður í fullbúnum slökkvibíl felst m.a. í búnaði til björgunar úr bílflökum s.s. klippubúnaði og loftpúðum. Þá þarf slöngur, stúta, reykköfunaræki, reykblásara og annan búnað og er áætlað verð um 6-8 milljónir“ sagði Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri við blm. VF áður en hann bauð honum að aka ferlíkinu og kallaði þannig fram létt taugaáfall hjá fátækum ritsmiðnum. Bifreiðin er byggð samkvæmt sænskum staðli BAS 1, mjög fullkomin og er gott dæmi um nútíma slökkvibíl, vatnsdæla er frá Ruberg afkastageta um 2500 lítrar á mínútu við 10 bar, 3000 lítra vatnstankur og 400 lítra froðutankur. Undirvagn er af gerðinni Scania P114GB4X2NA með 6 strokka 340 hestafla DC1101 EURO 2 diesel vél, sjálvirka gírskiptingu, ABS bremsukerfi, spólvörn, rafstýrð loftfjöðrun að aftan, burðargeta 18 tonn. Bifreiðin er með áhafnahúsi með sjálvirku felli þrepi, loftsfjaðrandi bílsjórasæti, aftursæti fyrir þrjá reykkafara er með innfellu og festingum fyrir reykköfunar-tæki ásamt 3 punkta öryggisbeltum. Yfirbygging er sérstaklega hagkvæm, nútíma útfærsla hvað varðar nýtingu á plássi, aðkomu starfsmanna og þrif. Rafstöð og stigar með sérstökum stoðfótum eru á þaki, fimm metra ljósamastur tengd rafstöð, öll hólf í yfirbyggingu eru frostfrí (lofthituð) þar má nefna að mögulegt er að leiða barka í rými klestra bíla á slysavettvangi og hita upp rými sjúklinga. Nútíma ljósabúnaður er á bílnum sem býður upp aðvörunarljós sem leiðbeinir umferð á slysavettvangi. VF-mynd: JAK