Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Slippurinn opnar starfsstöð í Grindavík
Fimmtudagur 30. júní 2022 kl. 10:14

Slippurinn opnar starfsstöð í Grindavík

Slippurinn Akureyri ehf. hefur keypt fasteignir, vélar og tæki Martaks í Grindavík. Með kaupunum flytjast tíu starfsmenn Martaks til Slippsins frá og með 1. júlí 2022.  Aðrir starfsmenn Martaks fylgja félaginu til áframhaldandi rekstrar.

Framkvæmdastjóri Slippsins segir mikilvægt að vera með starfsstöð á Reykjanesi og geta þannig veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu og suðvestur horni landsins aukna þjónustu. Í Grindavík er sjávarútvegurinn öflug atvinnugrein auk þess sem staðsetningin er ákjósanleg til að þjónusta fiskeldi sem er að byggjast upp á Reykjanesi sem og á Suðurlandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eigandi Martaks segir að samvinna fyrirtækjanna hafi skilað góðum árangri á undanförnum árum, þessi viðskipti gefi tilefni til bjartsýni og frekari uppbyggingar á komandi misserum.

Sérhæfð starfsemi

Martak hefur frá stofnun þess, fyrir tæpum fjörutíu árum, verið leiðandi á sviði tæknilausna og þjónustu fyrir rækjuiðnaðinn en hefur síðustu ár í auknum mæli sinnt sambærilegum verkefnum fyrir fiskiðnaðinn. Fyrirtækið er með starfstöðvar á Íslandi og Kanada og mun þaðan sinna núverandi og nýjum viðskiptavinum.

Martak hefur einnig á síðustu misserum boðið upp á heildstæðar lausnir til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga. 

Slippurinn er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði hér á landi og veitir alhliða þjónustu við sjávarútveginn, bæði á Íslandi og erlendis. Fyrirtækið býður heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra, auk þess sem svonefndum landverkefnum hefur fjölgað á undanförnum árum. Framleiðslufyrirtækið DNG er í eigu Slippsins, öll framleiðsluvara og vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn “ og svo verður um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.

Slippurinn hefur síðustu ár tekið að sér sífellt stærri verkefni tengd fiskeldi og mun Slippurinn leitast við með þessum kaupum að þjónusta núverandi fiskeldisfyrirtæki á svæðinu auk þess að koma að nýsmíðum og þjónustu við þá uppbyggingu sem á sér stað á svæðinu.


Bætt þjónusta nær heimasvæðum viðskiptavina

Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins:  

„Örar tæknibreytingar hafa orðið á undanförnum áratugum á öllum sviðum matvælavinnslu, sem stuðlað hafa að bættri nýtingu afurða og auknum gæðum. Íslendingar eru framarlega á þessu sviði, sérstaklega í sjávarútvegi. Ástæðan er meðal annars vegna náins samstarfs atvinnugreinarinnar og fyrirtækja í tækni- og þekkingargeiranum.

Slippurinn og Martak hafa um árabil átt í góðu samstarfi, bæði hérna á Íslandi og erlendis. Með þessum viðskipum er sambandið styrkt til mikilla muna, báðum félögunum til hagsbóta.

Ég tel þetta því jákvætt og rökrétt skref og hlakka til að vinna áfram með mjög svo hæfu starfsfólki Martaks. Fyrir Slippinn er einnig mikilvægt að vera með öfluga starfsstöð  sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem sjávarútvegur er öflugur og tengd starfsemi. Með kaupunum getum við boðið núverandi og nýjum viðskiptavinum enn betri þjónustu nær þeirra heimasvæði, auk þess sem vöruframboð Slippsins eykst. Í raun má segja að við séum að svara kalli viðskiptavina okkar og um leið að treysta starfsemina til muna.“

Ríkur mannauður

Jón Ósmann eigandi Martaks:

„Martak hefur náð góðum árangri á undanförnum árum, enda hafa tæknilausnir og þjónusta þess vakið verðskuldaða athygli víða um heim. Þessar breytingar gefa Martaki tækifæri á því að einblína og sinna enn betur ört vaxandi markaði fyrir hátæknibúnað í rækjuvinnslu og fyrir búnað til hreinsunar á frárennsli fyrirtækja og sveitarfélaga.  

Martak hefur átt í góðu og farsælu samstarfi við Slippinn í gegnum tíðina og því gefa þessi viðskipti tilefni til bjartsýni og enn frekari uppbyggingar á komandi misserum.  Mannauður fyrirtækjanna er ríkur, sem er forsenda þess að standast harða alþjóðlega samkeppni. Ég hlakka til að sjá Slippinn vaxa og dafna hérna fyrir sunnan.“