Slæmt skyggni á þjóðvegum Suðurnesja
Lítið skyggni er á helstu vegum á Suðurnesjum þessa stundina. „Slæmt skyggni og dimm él eru víða á Suðvesturlandi og því eru vegfarendur beðnir um að aka með gát,“ segir í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.
Snjóþekja er á Reykjanesbraut, Grindavíkurvegi og á leiðum til Garðs og Sandgerðis. Talsvert skefur og skyggnið eftir því.
Dreifing Víkurfrétta utan Reykjanesbæjar hefur tafist vegna þess að umferðin er hæg. Blöðin eru þó komin á alla dreifingarstaði í Reykjanesbæ og Grindavík en ekki hefur enn tekist að koma blöðum í Voga, Garð og Sandgerði. Við bendum á rafræna útgáfu blaðsins hér að neðan.