Slæmt ástand vega í hlákunni
Óvenju slæmt ástand hefur verið á strætum Reykjanesbæjar í hláku síðustu daga, en víða hafa myndast stórar skemmdir í malbikið á fjölförnum umferðagötum. Holurnar hafa jafnvel verið svo djúpar að hætta er á skemmdum á bifreiðum þar sem ökumenn gæta ekki að sér.
Viðar Már Aðalsteinsson, forstöðumaður Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, sagði í viðtali við Víkurfréttir að ástandið væri óvenjuslæmt um þessar mundir. „Þessi frostavetur hefur verið okkur erfiður en nú erum við að vinna að viðgerðum af fullum krafti.“
Ástand þetta skapast þar sem holklaki verður til í jarðvegi og lyftir upp malbikinu. Þegar hann svo þiðnar myndast hinar hvimleiðu holur í vegina og er vert að biðja vegfarendur um að sýna aðgát þar til viðgerðum er lokið.
Myndirnar sendi vegfarandi sem blöskraði ástand Flugvallarvegarins