Slæmt ástand útileiksvæða í Reykjanesbæ
-Margra ára trassaskapurLélegur frágangur og slysagildrur á opnum leiksvæðum í Reykjanesbæ, var til umræðu á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag. Ólafur Thordersen (J), tók málið upp og sýndi bæjarfulltrúum ljósmyndir af illa förnum leiksvæðum, máli sínu til stuðnings. „Ég vil lýsa yfir áhyggjum mínum vegna ástands útileiksvæða í Reykjanesbæ en víða vantar körfuhringi, körfur og net í mörk. Yfirborð valla er víða farið að láta á sjá og hefur það mikla slysahættu í för með sér. Einnig vantar girðingar og að ljúka frágangi í kringum leiksvæði. Ég tel brýna þörf á úrbótum hið fyrsta“, sagði Ólafur og lagði fram bókun um málið.Böðvar Jónsson (D) sagði að tartanvellirnir hefðu verið settir upp í núverandi mynd í fyrra og ekki hefði verið hægt að ljúka framkvæmdum í vetur vegna veðurs. „Þessi svæði verða hin glæsilegustu þegar framkvæmdum er að fullu lokið“, sagði Böðvar.Ólafur fór aftur í ræðustól og lá hátt rómur. „Ég er algjörlega ósammála Böðvari. Það þýðir ekkert að tala um vetrarveður, þetta ástand má skrifa á margra ára trassaskap og ekkert annað. Völlurinn við Norðurgarð í Keflavík er t.d. búinn að vera holóttur og illa hirtur í ein þrjú ár og völlurinn við Njarðvíkurskóla er búinn að vera svona frá því að elstu menn muna. Þetta eru slysagildrur og það er kurr í íbúum bæjarfélagsins vegna málsins“, sagði Ólafur.