Slæm veðurspá hefur áhrif á næstu daga í Grindavík
Ekki verður hægt að fara til Grindavíkur á morgun föstudag 2. febrúar né laugardaginn 3. febrúar vegna veðurs.
Áfram heldur veðrið að hafa áhrif á það skipulag sem unnið er eftir. Veðurspáin er með þeim hætti að ekki þykir óhætt að halda því fyrirkomulagi sem búið var að setja upp.
Eins og áður hefur komið fram þá er alltaf unnið út frá öryggi og velferð Grindvíkinga. Veðrið hafði áhrif á vitjun eigna í gær sem þýddi að skipulagið færðist um einn dag. Að þessu sinni færist skipulagið aftur um tvo daga. Þau sem þegar hafa óskað eftir aðgengi í gegnum island.is þurfa ekki að senda aftur umsókn.
Á sunnudaginn verður haldið áfram með fyrirhugað skipulag þar sem spáin er skárri.