Sláandi myndir af landbroti á Reykjanesi
Ágangur sjávar er mikill víða meðfram ströndum Reykjanesskagans og hafa sjóvarnir verið settar upp sums staðar til að verja lönd og mannvirki. Á Reykjanesi er landbrotið gríðarlegt og má sjá breytingar á strandlengjunni þar milli ára.
Ellert Grétarsson, ljósmyndari Víkurfrétta, birtir á bloggi sínu þessar sláandi myndir sem sýna þetta vel. Þær eru teknar með rúmlega 20 ára millibili frá svipuðu sjónarhorni og eins og sjá má er þetta sker það eina sem eftir er af þessum fallega gatkletti. Nokkuð er þó um liðið síðan kletturinn hvarf en það er ekki fyrr en nýlega sem eldri myndin kom í leitirnar svo hægt væri að sýna samanburðinn. Hún er tekin af Gunnari Má Jakobssyni en nýrri myndina tók Ellert um síðustu helgi.