Skýrslu um sparisjóði frestað
Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna verður ekki skilað fyrr en hún er tilbúin, segir formaður nefndarinnar. Til stóð að skila henni í september. Nefndin hóf störf í september síðastliðnum og hefur ásamt tug starfsmanna starfað óslitið síðan þá. RÚV greinir frá.
Rannsókn nær aftur til 2005 þegar sparisjóðirnir voru 22 og auk þess sparisjóðabankinn. 2008 voru þeir fimmtán og sparisjóðabankinn en nú eru þeir tíu þar af tveir í eigu Arion-banka.
„Þetta hefur gengið að mestu leyti vel. Þetta er gríðarlega umfangsmikil vinna og dálítið flókin og við höfum þurft að afla mikilla gagna sem er tímafrekt að vinna úr. Þannig að þetta gengur svolítið hægt og miklu hægar en við vildum,“ segir Sigríður Ingvarsdóttir, formaður rannsóknarnefndainnar og viðurkennir þetta hafi verið mun umfangsmeira en hún hafði sjálf reiknað með.
Sigríður segir að nefndinni hafi borist ábendingar og miklar gagnlegar upplýsingar og gögn. En hún vill ekki gefa upp hvort nefndin hafi látið gera athuganir hjá fyrirtækjum og stofnunum eins og nefndin hefur heimild til. Samkvæmt skipunarbréfi nefndarinnar á hún ekki aðeins að rannsaka tímabilið fyrir hrun.
„Áhrif hrunsins eru enn að koma í ljós og rannsóknin á líka að taka til tímans eftir fall íslensku bankanna.“
Samkvæmt þingsályktunartillögu sem þingið samþykkti átti að skila skýrslunni 1. júní. Tímasetningin færðist fram í september en nú er ljóst að af því verður ekki.
„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það. Skýrslunni verður skilað þegar hún er tilbúin. Og hún verður vonandi vönduð og gefur góðar upplýsingar.“